Glórulaus hækkun á fasteignasköttum borgarinnar
„Það er glórulaus hækkun á þessum fasteignasköttum. Þetta er mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki í Reykjavík, alveg klárlega,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í frétt Morgunblaðsins um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.
Fasteignaskattar hækkað um milljarð á ári síðustu fimm ár
Í fréttinni segir að þar komi fram að gert sé ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli á fasteignagjöldum á næsta ári. „Skatttekjurnar af þessu, miðað við áætlunina fyrir næsta ár, eiga að vera um 16,9 milljarðar króna. Það er fimm milljörðum hærri fjárhæð en fyrir fimm árum. Þetta er því búin að vera milljarða hækkun á ári sem hefur runnið í borgarsjóð á þessum tíma.“
Skatttekjur borgarsjóðs verði 21 milljarður undir lok áætlunar
Ingólfur segir í fréttinni að í fjárhagsáætluninni sé gert ráð fyrir sömu hækkun árlega til ársins 2027. Skatttekjur borgarsjóðs verða því komnar í tæplega 21 milljarð undir lok áætlunarinnar og yfir 20 milljarða í lok kjörtímabils núverandi meirihluta í borginni.
Hæsta álagningarprósenta hjá borginni á sama tíma og grunnur hækkar
Í fréttinni segir að álagningarprósenta borgarinnar sé sú hæsta meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafi verið lækkuð úr lögbundnu hámarki, 1,65%, niður í 1,6% á milli áranna 2020 og 2021 en helst nú óbreytt. „Á sama tíma og borgin hefur verið afskaplega þver í því að lækka prósentuna um 0,05 prósentustig þá hafa sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu lækkað álagningarprósentuna. Samhliða því hefur grunnurinn hækkað mjög mikið,“ segir Ingólfur og nefnir í fréttinni að frá 2017 hafi Hafnarfjarðarbær lækkað prósentuna úr 1,65% niður í 1,4% eða um 0,25 prósentustig og Kópavogsbær úr 1,62% niður í 1,47% eða um 0,15 prósentustig.
Skattpíningin á atvinnuhúsnæði er í Reykjavík
„En það skiptir langmestu máli hvað Reykjavíkurborg gerir. Hún innheimtir um það bil helminginn af öllum skatttekjum í landinu af álagningu fasteignaskatts á húsnæði. Þannig að skattpíningin á sér stað þar.“
Morgunblaðið / mbl.is, 2. nóvember 2022.