Fréttasafn



1. des. 2017 Almennar fréttir

Góð fyrirheit í nýjum stjórnarsáttmála

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar lofar góðu. Áherslu á uppbyggingu innviða, nýsköpun og menntun er sérstaklega fagnað enda er þar fjárfest til framtíðar og samfélagið búið undir breytingar samhliða fjórðu iðnbyltingunni. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Hann segir jákvætt að sjá áherslu nýrrar ríkisstjórnar á nýsköpun þar sem hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni. Nýsköpun sé án landamæra og því verði starfsumhverfi hér á landi að vera samkeppnishæft við það sem gengur og gerist erlendis. Hann vonar að strax á nýju ári komi til framkvæmda að afnema þök á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar. 

Sigurður segir einnig í greininni að þess megi vænta að samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun verði uppfærðar til samræmis við áherslu á að innviðir landsins verði styrktir og uppbyggingu í samgöngum hraðað. Hann segir að vel færi þó á því að gerð yrði innviðaáætlun þar sem kæmi fram heildstæð stefna um uppbyggingu innviða. 

Í niðurlagi greinarinnar segir hann að heilt yfir beri að fagna þeirri áherslu sem sett er á samkeppnishæfni því það geti ráðið úrslitum um vöxt og viðgang efnahagslífsins. „Það er tilhlökkunarefni að sjá það sem fram kemur í sáttmálanum verða að veruleika og við erum reiðubúin í þau uppbyggilegu samskipti sem ný ríkisstjórn boðar.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.