Góð mæting á fund um hæfislýsingu bjóðenda
Góð mæting var á fund Samtaka iðnaðarins og Félags vinnuvélaeigenda sem haldinn var í morgun í Húsi atvinnulífsins þar sem fjallað var um samevrópska hæfisyfirlýsingu bjóðenda (ESPD).
Það voru Dagmar Sigurðardóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa, og Guðrún Birna Finnsdóttir, teymisstjóri rammasamningsteymis Ríkiskaupa, sem héldu erindi um samevrópskar hæfisyfirlýsingar bjóðenda. Auk þess var kynnt stuttlega vinna stjórnvalda um sannvottunarþjónustu sem mun auðvelda bjóðendum og kaupendum að skila og afla gagna um hæfi bjóðenda. Samkvæmt nýjum lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 er nú heimilt að nota svokallaða samevrópska hæfisyfirlýsingu bjóðenda en þessi heimild felur í sér að framvegis þarf aðeins sá bjóðandi sem hlýtur samning að leggja fram skjöl til staðfestingar á hæfi sínu. Einnig má nota sömu hæfisyfirlýsingu aftur og aðeins þarf að uppfæra eftir þörfum. Vonast er til að þetta minnki vinnu við tilboðsgerð um 80%.
Að loknum erindum tóku gestir þátt í umræðum.
Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.
Dagmar Sigurðardóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa.