Góð mæting á kynningu á stöðu framkvæmda NLSH
Markaðsmorgunn Nýs Landspítala (NLSH) sem var haldinn í samstarfi við SI á Grand Hótel Reykjavík í gær var vel sóttur. Fundurinn er hluti af stefnu NLSH um reglulega upplýsingagjöf til markaðarins varðandi stöðu framkvæmda og væntanleg útboðsverkefni.
Fundurinn hófst á erindum frá starfsmönnum NLSH þar sem farið var yfir helstu framkvæmdir sem eru í gangi og þau útboð sem eru á döfinni. Að erindum loknum var opnað fyrir spurningar sem gaf iðnmeisturum og öðrum hagaðilum kost á að fá nánari innsýn í framkvæmdaráætlanir og innkaupaferli.
Eftir formlegan fundarhluta gátu fundargestir átt samtöl við starfsmenn NLSH sem koma að framkvæmdum og útboðum. Þetta gaf iðnmeisturum og verktökum tækifæri til að afla sér beinna upplýsinga um þau verkefni sem eru framundan og hvernig þeir geta tekið þátt í þeim.
Á vef NLSH er eftirfarandi haft eftir Jónasi Jónatanssyni, teymisstjóra áætlana- og innkaupa hjá NLSH: „Þetta var vel heppnaður fundur og mikilvægur enda mjög stór útboð framundan hjá NLSH. Það er mikilvægt fyrir okkur að hitta hagaðila hjá fyrirtækjum og ná samtali um fyrirkomulag útboða og verklegra framkvæmda. Þökkum einnig gott samstarf við SI,” segir Jónas Jónatansson teymisstjóri áætlana- og innkaupa hjá NLSH.
SI styðja við gagnsæ útboðsferli
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að opinberar framkvæmdir séu skipulagðar með skýru og gagnsæju fyrirkomulagi þannig að fyrirtæki í iðnaði geti átt kost á að taka þátt í útboðum á jafnréttisgrundvelli. Regluleg upplýsingagjöf, eins og á Markaðsmorgni NLSH, er mikilvæg í þessu samhengi og SI munu áfram fylgjast náið með framgangi verkefna og gæta hagsmuna félagsmanna sinna í tengslum við opinber útboð.