Góðar umræður um ábyrgð rafverktaka
Rafverktakar fjölmenntu á morgunverðarfund Félags löggiltra rafverktaka, FLR, sem haldinn var síðastliðinn föstudag í húsnæði Rafmenntar. Það var Ingibjörg Halldórsdóttir, lögmaður hjá Land lögmönnum, sem flutti erindi sem hún kallaði Ábyrgð rafverktaka.
Í erindinu var komið víða við og meðal annars útlistað hvað felst í hugtökunum ábyrgðir innan og utan samninga. Eftir erindið svaraði Ingibjörg fyrirspurnum fundarmanna og spunnust góðar umræður þar sem fundarmenn voru áhugasamir um efnið. Meðal annars var rætt um þá fjárhagslegu áhættu sem er fólgin í því þegar iðnmeistari skrifar upp á eða „leppar“ verk réttindalausra. Það var mál fundarmanna að Ingibjörg hefði gert efninu góð skil.
Ingibjörg Halldórsdóttir, lögmaður hjá Land lögmönnum.