Fréttasafn



30. jan. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Góðar útboðsvenjur geta dregið úr útgjöldum hins opinbera

Fyrirtæki innan raða SI hafa lengi kallað eftir hagkvæmu, stöðugu og skilvirku starfsumhverfi og innviðafjárfestingu þar sem áætlanir ganga eftir. Stór liður í því að bæta starfsumhverfi fyrirtækja í mannvirkjaiðnaði er fólginn í bættum útboðsvenjum opinberra verkkaupa. Þetta segja Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í grein sem birt er á Vísi. Þau segja að á Útboðsþingi SI á síðasta ári hafi verið lagðar fram tillögur að 12 góðum útboðsvenjum. Þessum tillögum hafi verið vel tekið en þrátt fyrir áhuga allra hlutaðeigandi og vilja til breyttra útboðsvenja hafi lítið áunnist. Nauðsynlegt sé að kalla marga aðila að borði sem þurfa að ganga í sömu átt í þeirri vegferð að bæta útboðsvenjur.

Þau segja að með samstarfsvettvangi opinberra verkkaupa væri unnt að einfalda samtalið við mannvirkjaiðnaðinn um bætt starfsumhverfi og innleiðingu góðra útboðsvenja til að tryggja samræmt verklag. Slíkir samstarfsvettvangar þekkist víða í nágrannaríkjum okkar og hafi reynst vel með framgreind markmið í huga.

Í greininni segja Jóhanna Klara og Bjartmar Steinn að góðar útboðsvenjur væru til hagsbóta bæði fyrir fyrirtæki í mannvirkjaiðnaði og opinbera verkkaupa enda eru tillögurnar til þess fallnar að draga úr kostnaði, auka fyrirsjáanleika og bæta starfsumhverfi. Þannig geti fyrirtækin gert raunhæfar áætlanir og lagt inn hagstæðari tilboð í opinberar framkvæmdir. Hagstæðari tilboð leiði til lægri kostnaðar opinberra verkkaupa og dragi þannig úr útgjöldum hins opinberra, íslenskum skattgreiðendum til bóta.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni. 

Vísir, 29. janúar. 2024.