Fréttasafn23. jan. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Græn straumlínustjórnun sem dregur úr sóun

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Bryndísi Skúladóttur, sviðsstjóra framleiðslu- og matvælasviðs SI í tilefni af ráðstefnu sem Samtök iðnaðarins og Manino héldu í dag um straumlínustjórnun og umhverfismál í Háskólanum í Reykjavík. Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður, ræddi við Bryndísi sem segir viðburðinum meðal annars ætlað til að varpa ljósi á svokallaða „lean green“ stjórnun sem sameinar straumlínustjórnun og umsameinar straumlínustjórnun og umhverfisstjórnun. 

Allir leggi sitt af mörkum

„Kveikjan að fundinum var að við finnum fyrir miklum áhuga hjá íslenskum fyrirtækjum á að leggja sitt af mörkum til umhverfis- og loftslagsmála. Við vitum að heimsbyggðin öll stendur frammi fyrir miklum áskorunum sem verða ekki leystar miðlægt heldur munu allir þurfa að leggja sitt af mörkum, og margar litlar breytingar að eiga sér stað á mörgum stöðum.“ 

Kelly Singer frá Lean Green Institute í París er aðalfyrirlesari ráðstefnunnar en auk hennar taka til máls þau Svanborg Guðjónsdóttir hjá UCN, Búi Bjarmar Aðalsteinsson hjá BSF Production, Magnús Þór Ásmundsson hjá Alcoa, Hröfn Hrafnsdóttir hjá Reykjavíkurborg og Pétur Arason frá Manino. Bryndís segir mikinn feng í Kelly Singer og hefur hún verið leiðandi í þróun „lean green“ stjórnunar. „Hún hefur bent á að fyrirtæki hafi aldrei verið eins vel meðvituð um mikilvægi þess að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í öllum rekstri, en því miður hætti atvinnulífinu til að nálgast sjálfbærnina með ósjálfbærum hætti. Mun Kelly fjalla um hvernig fyrirtæki sem nota straumlínustjórnun hafa, með fimm lykil-vinnubrögð að leiðarljósi, náð að gera varanlegar breytingar í átt að umhverfisvænni og liprari rekstri, til hagsbóta fyrir bæði plánetuna, samfélagið og reksturinn.“ 

Samnýta þekkingu og ferla 

Að sögn Bryndísar spruttu straumlínustjórnun og umhverfisstjórnun fram með ólíkum hætti og hafa þróast íólíkar áttir. Ef að er gáð er þó hægt að láta straumlínu- og umhverfisstjórnun fara saman enda er markmiðið í báðum tilvikum að draga úr sóun. „Ráðstefnan er að skoða hvar þessir tveir heimar mætast, hvað þeir geta lært hvor af öðrum og hvernig má samnýta þekkingu og ferla.“ Ávinningurinn felst ekki aðeins í liprari rekstri og minni sóun heldur bendir Bryndís á að réttu áherslurnar geti haft mjög jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. „Önnur fyrirtæki og einstaklingar kjósa frekar að versla við þá sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi í rekstrinum. Starfsfólk verður einnig ánægðara með vinnustaðinn ef það finnur að starfsemin er til þess fallin að hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið.“

Morgunblaðið, 23. janúar 2017.