Fréttasafn



20. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Grænir skátar taka líka við álinu í sprittkertunum

Grænir skátar hafa slegist í hóp þeirra sem standa fyrir endurvinnsluátaki á áli í sprittkertum. Yfirskrift átaksins er „Gefum jólaljósum lengra líf“ og stendur það yfir í desember og út janúar. Grænir skátar reka 80 grenndarstöðvar og 40 stöðvar til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu og býðst fólki að setja álið úr sprittkertunum í dósagámana. Þá er hægt að skila sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land á vegum Sorpu, Endurvinnslunnar, Gámaþjónustunnar og Íslenska gámafélagsins. Einnig gefst fólki kostur á að setja kertin í grænu tunnurnar sem eru í boði hjá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu. 

Efla á vitund um mikilvægi þess að endurvinna ál

Tilgangurinn með átakinu er að fá fjölskyldur til að skila álinu í sprittkertum til endurvinnslu og efla vitund Íslendinga um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum en ætla má að á ári hverju séu notuð um 3 milljónir sprittkerta hér á landi. 

Samtök iðnaðarins eru meðal þeirra sem standa að átakinu ásamt Samál - Samtök álframleiðenda, Endurvinnslan, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg og Sorpa. Ráðist hefur verið í sambærileg átaksverkefni í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og á Írlandi og er þetta tilraunaverkefni hér á landi. Álið sem safnast verður pressað hjá Furu og endurunnið hér á landi, en nánar verður tilkynnt um útfærslu þess þegar söfnunarátakinu lýkur í lok janúar.

Á myndinni er Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta, með kerti til endurvinnslu.

Kerti