Fréttasafn13. nóv. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Grafalvarleg staða að langtímavextir hækki

Í Fréttablaðinu kemur fram að mati Samtaka iðnaðarins sé það grafalvarleg staða að langtímavextir hafi hækkað hratt undanfarna mánuði og séu nú á svipuðum slóðum og fyrir kórónaveirufaraldurinn. Mikilvægt sé að Seðlabanki Íslands snúi þeirri óheillaþróun við og beiti til þess þeim hagstjórnartækjum sem bankinn býr yfir. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI segir umtalsverða hækkun langtímavaxta andstætt markmiðum hagstjórnar sem er að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. „Vaxtahækkunin á sér stað á sama tíma og fyrirtæki og heimili landsins eru að takast á við einn dýpsta og snarpasta samdrátt í íslenskri efnahagssögu. Hækkun langtímavaxta dregur enn frekar úr innlendri eftirspurn, eykur dýpt niðursveiflunnar og ýtir undir fækkun starfa.“ 

Í fréttinni kemur fram að mati Ingólfs sé tvennt sem hafi valdið hækkun langtímavaxta undanfarið. Í fyrsta lagi kalli umtalsvert aukinn halli á hinu opinbera á auknar lántökur. Væntingar um slíkt hafi þau áhrif að langtímavextir hækka. Í öðru lagi boðaði Seðlabankinn að hann ætli að vinna á móti þessu með uppkaupum á ríkisbréfum fyrir allt að 150 milljarða króna, svokölluð magnbundin íhlutun. Hins vegar hafi lítið sem ekkert verið um efndir af hálfu bankans hvað þetta varðar. Aftur hafi væntingar áhrif en lítil kaup bankans grafi undan trú fjárfesta á að hann ætli að fylgja eftir orðum sínum með aðgerðum. „Það er mikilvægt að þessu sé snúið við því töf er kostnaður fyrir fyrirtæki og heimili í landinu og kemur ekki síst fram í því að atvinnuleysi heldur áfram að aukast. Með skjótum aðgerðum af hálfu bankans má hins vegar tryggja lækkun langtímavaxta og milda þannig þessa djúpu niðursveiflu.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 13. nóvember 2020.