Fréttasafn



5. ágú. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Grafalvarleg staða ef áform ESB verða að veruleika

„Þetta er auðvitað mjög grafalvarleg staða sem upp er komin ef þessi áform verða að veruleika,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í fréttum RÚV um þann möguleika að Evrópusambandið, ESB, hækki tolla á kísilmálma- og járnblendiframleiðslu Íslands. Sigurður segir að á annað þúsund manns starfi beint eða óbeint í kísiliðnaði á Íslandi á síðasta ári. „Við verðum að hafa það í huga vegna ytri aðstæðna að fyrir réttri viku síðan stöðvaði PCC á Bakka sinn rekstur og ef að þessi áform ESB ganga eftir að þá er, og verða viðvarandi í einhvern tíma, að þá mun það auðvitað bitna harkalega á Elkem eins og forstjóri félagsins hefur greint frá. En hitt er svo annað mál í stærri myndinni að ef þetta er eitthvað sem að við eigum að venjast, að verndarráðstafanir Evrópusambandsins, að þær verndi ekki okkar hagsmuni heldur bitni á okkur, þá er það stórt og getur varðað okkar hagsmuni og haft mjög slæm áhrif á okkar hagsmuni í framtíð.“

Hætta á að lenda á milli

Þegar fréttamaður spyr Sigurð hvort hann óttist að eftir því sem þessir tollamúrar kannski hækki almennt að þá geti það gerst oftar að Ísland lendir á milli skips og bryggju svarar hann: „Það getur gert það, já, og auðvitað er vaxandi umræða um tolla bara í heiminum á síðustu misserum. Þannig að þá er auðvitað þessi hætta fyrir hendi að við einhvern veginn lendum á milli.“

Meiri óvissa en verið hefur í starfsumhverfi fyrirtækja

Þegar Sigurður er spurður út hvort starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé orðið mun ótryggara núna á örfáum mánuðum svarar hann: „Jú, það er í rauninni miklu meiri óvissa núna en verið hefur og við höfum svo sem séð það á undanförnum árum líka þannig að að við, bara rétt eins og ríki, nágrannaríkin, stjórnvöld í nágrannaríkjunum hafa sett samkeppnishæfni sinna landa í algjöran forgang að þá þurfa íslensk stjórnvöld að gera það líka, tala fyrir hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi, sem þau hafa reyndar gert mjög ötullega og við hrósum þeim fyrir það. En ekki síður að horfa til þess sem að gert er hérna heima, til þess sem að hægt er að hafa stjórn á og ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi.“

Í lok fréttarinnar segir Sigurður að samkomulag Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um15% tolla væru góðar fréttir fyrir okkur. „Þetta dregur heilt yfir úr óvissu þannig er þetta, þetta eru jákvæðar fréttir og dregur þá vonandi úr spennunni líka sem að ríkt hefur.“

RÚV, 27. júlí 2025.

RUV-27-07-2025_1Sigríður Hagalín Björnsdóttir ræðir hér við Sigurð Hannesson í fréttum RÚV.