Grafalvarleg staða í kjölfar dóms um ógildingu virkjanaleyfis
„Niðurstaða dómsins er mikil vonbrigði. Staðan sem upp er komin er grafalvarleg. Það hefur verið skortur á raforku um nokkurra ára skeið og ljóst að ný raforka mun ekki koma inn á kerfið fyrr en af nokkrum árum liðnum. Þetta er mjög slæmt fyrir samfélagið í heild sinni. Ég held að engin hafi órað fyrir því að á Íslandi sé ekki mögulegt að reisa vatnsaflsvirkjun,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Vísis/Stöðvar 2 í tengslum við dóm Héraðsdóms sem ógildir virkjunarleyfi Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Sigurður telur þó að þetta þýði aðeins frestun á að Hvammsvirkjun. „Það má ekki gleyma því að undirbúningur Hvammsvirkjunar hefur staðið í meira en aldarfjórðung. Þannig að ég sé ekki betur en að það sé búið að velta hverjum einasta steini varðandi þetta verkefni.Við þó gerum ráð fyrir að það verði af þessari mikilvægu framkvæmd en þetta seinkar henni um nokkur ár.“
Stjórnvöld bera ábyrgð og verða að breyta lögum
Þá kemur fram í frétt Vísis/Stöðvar 2 að Sigurður segir brýnt að stjórnvöld bregðist við. „Ef niðurstaða dómsins stendur þá virðist vera að það sé ekki mögulegt að reisa vatnsaflsvirkjun á Íslandi. Ef það er staðan, sem við vitum ekki á þessum tímapunkti, þá er ljóst að stjórnvöld bera þarna mikla ábyrgð og verði að breyta lögum.“
Á sama tíma verið að einfalda regluverk í Evrópu
Einnig kemur fram í fréttinni að Sigurður segir að lög og regluverk hér á landi þegar komi að leyfum til framkvæmda séu of flókin, það þurfi að einfalda regluverkið. „Það er fyrir samfélagið mikið umhugsunarefni að við séum komin á þann stað að það geti tekið ár og áratugi að koma framkvæmdum af stað hér á landi. Á sama tíma sjáum við í Evrópu að þar er verið að einfalda regluverk og liðka fyrir því að græn orkuöflun fari af stað.“
Vísir, 16. janúar 2025.