Fréttasafn



17. des. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Gríðarleg vaxtartækifæri framundan í íslensku hagkerfi

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir meðal annars í Silfrinu á RÚV að þó staðan á ríkissjóði sé aðeins verri en búist hafi verið við sé hins vegar ný ríkisstjórn að taka við mjög sterkri stöðu þjóðarbúsins.„Ef ég færi rök fyrir því máli þá eru gríðarleg vaxtartækifæri fram undan í íslensku hagkerfi. Það er mjög mikill þróttur í atvinnulífinu þrátt fyrir langvarandi tímabil hárra vaxta og verðbólgu. Við sjáum hugverkaiðnaðinn, nýju stoðina eða fjórðu stoðina, vaxa og dafna og stækka með hverjum mánuðinum sem líður og stefnir í að fara fram úr sjávarútvegi í útflutningstekjum. Það eru líka mjög spennandi tímar framundan og mikil tækifæri. Ég held að stóra spurningin sé hvort þessi ríkisstjórn verði ríkisstjórn verðmætasköpunar. Það snýst þá um það hvernig skilyrði hún býr atvinnulífinu heilt yfir. Það er kannski stóra krafan eða óskalisti okkar lobby-istanna að það sé fyrirsjáanlegt umhverfi til næstu ára fyrir ólíkar atvinnugreinar til þess að vita að hverju þær ganga. Ég held að það sé breiðu línurnar.“

Hvað varðar orkumálin segir Sigríður að ný ríkisstjórn sé líka að taka við góðu búi. „Að því leyti að það er búið að leggja upp og rjúfa ákveðna kyrrstöðu sem var inni á þingi varðandi orkuöflun. Núverandi orkumálaráðherra í þessari starfsstjórn er líka nýlega búinn að kynna breytingatillögur um rammaáætlun. Þannig að það er búið að leggja ákveðinn, ég ætla að leyfa mér að kalla það, rauðan dregil fyrir næstu ríkisstjórn í orkumálum. Það eina sem á eftir að gera er að hrinda þessum áætlunum og breytingum í framkvæmd. Þannig að þetta er ekki allt alslæmt.“ 

Sigríður segir að svo séu líka ytri áskoranir. „Þetta snýst ekki alltaf um að skrifa einhvern fínan stjórnarsáttmála heldur fær ríkisstjórnin allskonar áskoranir í fangið. Það er mögulegt tollastríð framundan milli Evrópu og Bandaríkjanna eða Kína og Bandaríkjanna og Evrópa mun með einum eða öðrum hætti falla þar inn í. Það er breyttur veruleiki hvað varðar gríðarlegan vöxt gervigreindar. Það eru tækifæri og áskoranir í því, í innviðauppbyggingu gervigreindar, þar erum við því miður aðeins að dragast aftur úr öðrum löndum. Svo er þessi viðnámsþróttur í öryggis- og varnarmálum. Það mun skipta atvinnulífið gríðarlegu máli hvernig við bregðumst við. Þetta eru stóru breiðu línurnar.“

Sigríður var viðmælandi í Silfrinu ásamt Guðmundi Steingrímssyni, umhverfis- og auðlindafræðingi, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, borgarfulltrúa og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Í þættinum var meðal annars rætt um stöðu ríkissjóð, myndun nýrrar ríkisstjórnar, orkumál, atvinnustefnu og skipulagsmál. 

Á vef RÚV er hægt að nálgast þáttinn.

RÚV, 16. desember 2024.

Silfrid-16-12-2024_3Guðmundur Steingrímsson, Sigríður Mogensen, Bergsteinn Sigurðsson, Heiða Björg Hilmisdóttir og Jóhannes Þór Skúlason.