Gríðarlegar verðhækkanir raforku hafa mikil áhrif
Raforka hefur hækkað um tæp sjö prósent síðasta mánuðinn og fimmtán prósent síðustu tólf mánuði samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt RÚV að þetta hafi mikil áhrif á fyrirtæki og heimili í landinu. „Þessar hækkanir eru gríðarlega miklar á stuttum tíma. Við höfum ekki séð viðlíka hækkanir á milli mánaða á raforkuverði í fimmtán ár.“
Í frétt RÚV segir Sigurður að grunnástæðan fyrir hækkun rafmagnsverðs sé að ekki hafi verið virkjað nóg síðustu ár til að mæta orkuþörf og þegar við bætist nýlegur dómur um Hvammsvirkjun sé nær ómögulegt að reisa vatnsaflsvirkjanir vegna leyfisveitinga og annarra mála, þessu beri stjórnmálamenn ábyrgð á og þau sem hafi þrýst á stjórnvöld um að virkja ekki. „Ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála þarf að fara inn í þingið með frumvörp til að greiða götu framkvæmda til að koma málum af stað. Síðan þarf líka að huga að því hvernig hægt sé að stemma stigu við svona miklum hækkunum á skömmum tíma. Þar þarf að horfa til ábyrgðar orkufyrirtækjanna. Það er auðvitað hugsanlegt að þau hafi farið alltof geyst í verðhækkanir á orku upp á síðkastið.“
RÚV, 30. janúar 2025.