Fréttasafn



17. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Gríðarlegt högg ef álverið í Straumsvík hættir

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir í útvarpsþættinum Vikulokin á Rás 1 að það yrði gífurlegt högg fyrir íslenskt atvinnulíf ef Rio Tinto hættir starfsemi í Straumsvík og að um 1.250 störf séu þar undir, 500 störf hjá fyrirtækinu og 750 afleidd störf. Þá skapi fyrirtækið 60 milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári, þar af skilja það hér eftir 22-23 milljarða króna í sköttum, launum og raforku á hverju ári.

Það er Bergsteinn Sigurðsson sem ræðir við Guðrúnu. „Við erum að fara núna inn í niðursveiflu í atvinnulífinu og það verður gríðarlegt högg fyrir íslenskt atvinnulíf ef að þetta er staðreynd. Það verður líka fyrir okkur orðsporshnekkir fyrir Ísland ef erlend fjárfesting segist ekki geta þrifist hér á landi. Hvernig ætlar þá Landsvirkjun að finna þá þessari orku annan farveg? Margir hafa bent á önnur tækifæri en hér hafa ekki verið langar biðraðir eftir þessari orku.“ Guðrún nefnir sem dæmi að Advania hafi reist nýjasta gagnaverið sitt frekar í Stokkhólmi vegna orkuverðs.

Yfir 1.200 störf í hættu

Guðrún segir yfir 1.200 störf vera í hættu.„ Það eru 500 manns innan girðingar og það eru um 750 manns sem hafa lifibrauð sitt af þessu fyrirtæki fyrir utan. Við erum að tala um 1.250 störf. Við erum líka að tala um fyrirtæki sem er að skilja eftir hér 22-23 milljarða í íslensku samfélagi á hverju ári. Ég veit ekki betur en að Ísal í Straumsvík hafi bara sýnt samfélagslega ábyrgð í því umhverfi sem það hefur lifað og starfað í á 50 árum. Starfsmannaánægja í Straumsvík er mjög mikil, starfsmannavelta er lítil. Þeir skila 500 milljónum inn í Hafnarfjarðarbæ á hverju ári og það eru ekki mörg sveitarfélög á Íslandi sem fá þetta.“ Guðrún segir að það sé hægara sagt en gert að byggja upp heila stoð í íslensku atvinnulífi. „Stóriðjan hefur verið ein af þessu stóru stoðum og það yrði auðvitað mikið högg ef eitthvað hrynur úr henni.“

Atvinnuleysið er grafalvarleg staða 

Í þættinum kemur fram að Guðrún telji að vandamál álversins kunni að hafa hafist með íbúakosningunni í Hafnarfirði þegar lokað var fyrir möguleika fyrirtækisins til að stækka. Þetta sé eina álver Rio Tinto sem enn er eftir í Evrópu, fyrirtækið hafi lokað verksmiðjum og fært til annarra landa. „Þetta snýst ekki bara um orkuna heldur yfir 1.200 störf í landinu og við pikkum það ekkert bara eins og rifsber af runnum að hausti. Við gerum það ekki. Það verður gríðarlega erfitt fyrir okkur. Atvinnuleysi núna er með því hæsta sem við höfum séð frá hruni, eða í kringum 2013. Það eru yfir átta þúsund manns atvinnulausir á Íslandi og það er grafalvarleg staða. Við erum eins og ég sagði áðan að sigla inn í öldudal. Það er hætt við því að ef þetta muni raungerast að þá verður okkar viðspyrna upp úr þeim dal mjög þung. Þannig að þetta verður miklu lengra samdráttarskeið heldur en við erum að vonast til að það verði núna.“

Erfitt að draga inn erlenda fjárfestingu þegar orkan er dýrari hér

Í þættinum segist Guðrún hafa töluvert miklar áhyggjur af orðsporsáhættu Íslands fyrir erlendar fjárfestingar. „Ef stórt alþjóðlegt fyrirtæki sem sá nú tækifæri í því þegar virkilega gaf á bátinn hér á Íslandi í efnahagshruninu 2008, þá var þetta erlenda fjárfestingin sem kom til Íslands. Þeir höfðu trú á Íslandi á þeim tíma; komu hér inn með 60 milljarða fjárfestingu til þess að auka framleiðslugetuna í sinni verksmiðju og bæta tæknistigið. Hvaða skilaboð erum við að senda hér út í heim ef þetta fyrirtæki fer héðan? Ég er bara hrædd um það að það verði erfiðara heldur en við höldum að ætla að draga hér inn erlenda fjárfestingu og það sé aðlaðandi að vera hér, þegar orkan er dýrari hér en í flestum löndum Evrópu.“

Á vef RÚV er hægt að nálgast þáttinn.