Fréttasafn



9. sep. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Gríðarlegur kraftur og tækifæri á Norðurlandi

Tækifæri til atvinnuuppbyggingar og búsetu á Norðurlandi eru fjölmörg og í raun einstök ef okkur lánast að skapa réttu skilyrðin: fjárfestingu í innviðum, öfluga nýsköpun, hlúa að menntun og mannauði, stórauka sjálfbæra orkuvinnslu og tryggja hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi fyrir fyrirtækin. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu á opnum fundi SI og SSNE sem fór fram í Hofi á Akureyri í hádeginu í dag. Árni sagði að með því að vinna náið saman gætum við leyst einstaka krafta úr læðingi og sótt tækifærin. 

Árni greindi einnig frá heimsóknum stjórnar og starfsmanna SI til fjölmargra félagsmanna á Norðurlandi og sagði það skipta máli að sinna þeim vel. Hann sagði að fyrst og fremst hafi verið ánægjulegt að skynja þann gríðarlega kraft og þau tækifæri sem liggi á svæðinu. 

Þá sagði Árni að nú væri verið að móta atvinnustefnu fyrir Ísland sem Samtök iðnaðarins bindi miklar vonir við en samtökin hafi lengi talað fyrir mótun á slíkri stefnu þar sem leggja á áhersla á aukna framleiðni atvinnugreina og að styrkja samkeppnishæfni Íslands.

Samtök iðnaðarins efla samkeppnishæfni íslensk iðnaðar um allt land

Í ávarpi sínu sagði Árni að Samtök iðnaðarins væru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda í landinu, sem vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við aðildarfélögin og fyrirtækin sjálf. Innan samtakanna væru tæplega 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau væru ólík innbyrðis, hvort sem litið væri til stærðar, framleiðslu eða markaða. Hann sagði Samtök iðnaðarins hafa það hlutverk að efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar um allt land í þágu samfélagsins alls.

Skattspor iðnaðar langstærst allra atvinnugreina

Þá kom fram í máli Árna að útflutningsverðmæti iðnaðar í heild hafi numið ríflega 750 milljörðum króna árið 2024 eða nær 40% af útflutningi Íslands það ár. Skattspor iðnaðarins, framlag til samfélagsins í formi skattgreiðslna, væri langstærst allra atvinnugreina á landinu. Hann sagði að stærð og mikilvægi iðnaðarins mælist ekki aðeins í stórum hagtölum eins og þessum heldur hafi áhrif á daglega afkomu og lífskjör sem snerti alla landsmenn með einum eða öðrum hætti. Beinu áhrifin væru til dæmis þau að um 52 þúsund manns starfi í iðnaði eða nær einn af hverjum fjórum á íslenskum vinnumarkaði.

Gagnaversstarfsemi spennandi atvinnugrein

Árni greindi frá heimsóknum til Verkmenntaskólans á Akureyri og í Drift, miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar. Einnig hafi verið haldinn hádegisverðarfundur með stjórn Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi sem hann sagði að væri félag meistara og fyrirtækja í löggiltum byggingargreinum á Norðurlandi, stofnað árið 1928 en þá undir nafni Meistarafélags Akureyrar. Árni sagði félagsmenn um 40 á sviði húsasmíði, rafvirkjunar, innréttinga, málunar, pípulagna, dúklagninga og múrverks. Hann nefndi einnig heimsókn í gagnaver atNorth þar sem hraði uppbyggingar væri í raun ævintýri líkast. Árni sagði tækniframfarir og vaxandi þörf fyrir stafræna innviði gera gagnaversstarfsemi að spennandi atvinnugrein sem vænst væri að muni vaxa margfalt á við aðra geira á næstu árum. Þá nefndi Árni heimsókn til félagsmanna SI í Raftákni sem væri ein elsta verkfræðistofa á rafmagnssviði stofnuð árið 1976 á Akureyri og hafi unnið að metnaðarfullum verkefnum um allan heim.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum:

https://vimeo.com/1117190697?share=copy#t=0



Myndir/Sindri Swan

SamtokIdnadarins-HOF-9-Sept-2144

SamtokIdnadarins-HOF-9-Sept-2152

SamtokIdnadarins-HOF-9-Sept-3120

SamtokIdnadarins-HOF-9-Sept-3106

SamtokIdnadarins-HOF-9-Sept-3116