Fréttasafn19. okt. 2017

Grímur kokkur hlaut Fjöreggið

Grímur kokkur hlaut viðurkenningu Fjöreggsins 2017 en það er Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands, í samstarfi við Samtök iðnaðarins, sem veitir á Matvæladegi MNÍ verðlaun fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði. Verðlaunagripurinn er íslenskt glerlistaverk, sem táknar Fjöreggið. Á myndinni eru eigendur Gríms kokks, hjónin Grímur Þór Gíslason og Ásta María Ástvaldsdóttir ásamt Ragnheiði Héðinsdóttur (t.v.), viðskiptastjóra matvælaiðnaðar hjá SI, sem afhenti þeim verðlaunin.

Fjoregg-allir

Grímur kokkur hlaut verðlaunin fyrir að auka fiskneyslu með fjölbreyttu vöruframboði úr íslensku sjávarfangi. Grímur kokkur er fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir tilbúna sjávarrétti. Markmið Gríms Kokks er að framleiða aðeins fyrsta flokks vöru úr fyrsta flokks hráefni, sem er bæði holl, bragðgóð og fljótlegt að framreiða. Stefnan er að vera framsækið fyrirtæki á matvælamarkaði, láta hlutina gerast og ná árangri, til hagsbóta fyrir fyrirtækið, starfsfólkið og allra helst fyrir viðskiptavinina. Fyrirtækið er staðsett í Vestmannaeyjum og sendir frá sér ferskar vörur tvisvar á dag til Reykjavíkur. Grímur kokkur leggur einnig sitt af mörkum til vísindanna með því að taka þátt í rannsóknarverkefnum með Matís og Háskóla Íslands þar sem áhrif fiskneyslu á heilsu er rannsökuð. 

Domnefnd

Í dómnefnd voru Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sem jafnframt var formaður dómnefndar, Áróra Rós Ingadóttir, doktorsnemi í næringarfræði við Háskóla Íslands, Grímur Ólafsson, matvælafræðingur og fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, og Laufey Steingrímsdóttir, prófessor emeritus í næringarfræði við Háskóla Íslands.