Fréttasafn1. nóv. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Samtök álframleiðenda á Íslandi

Gróska í Álklasanum sem á enn eftir að vaxa og dafna

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar grein í ViðskiptaMoggann um Álklasann sem stofnaður var 2014 þegar hátt í 40 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í að móta framtíðarsýn þessa þá nýstofnaða klasa. Hann segir að þegar litið sé um öxl sé ánægjulegt að af tíu áherslumálum hafi flest náð fram að ganga. Fyrst megi nefna að lagður hafi verið grunnur að rannsóknarsetri í áli innan Tækniseturs og tekist hafi öflugra samstarf við rannsóknarstofnanir, háskólasamfélög og stjórnvöld og betur gangi en áður að fjármagna verkefni. Pétur segir engan skort á tækifærum til að sækja fram, hvort sem litið sé til loftslagsmála og samdráttar í losun, hringrásarhagkerfisins, umhverfismála eða snjallvæðingar. Á meðal áherslumála hafi einmitt verið stuðningur við nýsköpunarverkefni og frekari fullnýting aukaafurða og úrgangs.

Í greininni kemur fram að á meðal nýsköpunarfyrirtækja í Álklasanum megi telja Arctus Aluminium sem vinni að þróun kolefnislausra skauta, Alor sem nýti ál sem orkubera í rafhlöðum, umhverfisvænar framleiðslulausnir Álvits og þá stefni Gerosion að endurnýtingu kerbrota hér á landi sem yrði bylting í hringrásarmálum. Alur álvinnsla hafi nýverið fjárfest í frekari endurnýtingu álgjalls og fyrirtækið DTE hafi haslað sér völl hér á landi og erlendis með sjálfvirkan greiningarbúnað sem bjóði upp á rauntímamælingar á málmum.

Í niðurlagi greinarinnar segir Pétur að því sé þannig farið að ef horft sé til allra fyrirtækja sem hafi umtalsverðar tekjur af þjónustu við álver á Íslandi þá sé listinn langur og telji hundruð fyrirtækja. Enda hafi íslensku álverin keypt vörur og þjónustu fyrir 61 milljarð í fyrra. Þá séu ótalin raforkukaup, sem áætlað sé að hafi numið 85 milljörðum. Áliðnaður sé ungur að árum á Íslandi, stærsta álverið hafi hafið starfsemi fyrir hálfum öðrum áratug, og ljóst megi vera að klasinn eigi enn eftir að vaxa og dafna.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMoggi, 1. nóvember 2023.