Fréttasafn26. jan. 2017 Almennar fréttir

Guðrún Hafsteinsdóttir fær viðurkenningu FKA

FKA viðurkenninguna 2017 hlaut Guðrún Hafsteinsdóttir, einn eiganda og markaðsstjóri Kjöríss, formaður Samtaka iðnaðarins og varaformaður Samtaka atvinnulífsins en Félag kvenna í atvinnulífinu afhenti í gær sínar árlegu viðurkenningar í Hörpu. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning og fyrirmynd bæði á sviði atvinnureksturs og með framlagi sínu í Samtökum iðnaðarins, og Samtökum atvinnulífsins.

Auk Guðrúnar hlaut Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf, hvatningarviðurkenningu FKA og Hafdís Árnadóttir, stofnandi og eigandi Kramhússins hlaut þakkarviðurkenningu FKA 2017. Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra, afhentu þeim viðurkenningarnar. 

Mynd-1-FKA-vidurkenningarÍ tilkynningu frá FKA kemur fram að Guðrún hafi lokið námi í mann- og kynjafræði frá Háskóla Íslands, er mikill jafnréttissinni og hefur verið óþreytandi við að hvetja konur til að láta til sín taka á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Þá segir að hún sjálf hafi verið óhrædd við að stökkva út í djúpu laugina og taka að sér ábyrgðarmikil og krefjandi verkefni. Þann kjark þakkar hún ekki síst foreldrum sínum. „Þau höfðu óbilandi trú á okkur systkinunum og ég man ekki eftir að kyn hafi nokkurn tíman verið fyrirstaða í þeirra huga. Þau hafa verið okkur öllum ómetanlegar fyrirmyndir,“ segir hún. Guðrún hefur langa og víðtæka reynslu af atvinnurekstri. Ekki aðeins hefur hún setið í stjórn fjölskyldufyrirtækisins Kjöríss frá unga aldri heldur tók hún við starfi framkvæmdastjóra félagsins aðeins 23 ára að aldri eftir fráfall föður síns og gegndi því í nokkur ár. Hún var síðar búsett í Þýskalandi í fimm ár en sneri aftur heim árið 2003, full af uppsafnaðri orku og athafnaþrá. Guðrún var fyrst kjörin formaður Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi 2014 og hefur verið endurkjörin tvisvar eftir það. Árið 2015 var hún kjörin varaformaður Samtaka atvinnulífsins og 2016 tók hún við stjórnarformennsku í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Auk þess starfar hún sem markaðsstjóri Kjöríss.