Fréttasafn



4. maí 2020 Almennar fréttir

Guðrún kveður eftir sex ára formannstíð

Að lokinni dagskrá aðalfundar SI sem fram fór síðastliðinn fimmtudag óskaði Guðrún Hafsteinsdóttir, fráfarandi formaður SI, eftir orði og hóf mál sitt á því að óska nýkjörnum formanni, Árna Sigurjónssyni, innilega til hamingju með glæsilegt kjör og velfarnaðar í störfum sínum fyrir samtökin. Auk þess sem hún óskaði nýjum stjórnarmönnum til hamingju með þeirra kjör og þakkaði þeim sem nú hafa gengið úr stjórn samtakanna fyrir þeirra framlag til íslensks iðnaðar. Guðrún sem lýkur 9 ára setu í stjórn og þar af 6 árum sem formaður segir árin hafa flogið áfram, „þegar tíminn líður hratt þá er sannarlega gaman“. Hún sagði að leiðarlokum standi það helst upp úr að hafa fengið að kynnast félagsmönnum samtakanna. 

„Ég kveð nú stjórn samtaka iðnaðarins eftir samfellda 9 ára setu en ég kveð ekki Samtök iðnaðarins. Það er ósk mín að þið sem á eftir komið vakið yfir hagsmunum þessara samtaka, já hagsmunum atvinnulífsins alls. Ég mun aldrei kvika frá því að öflugur iðnaður er forsenda velsældar og þó að nú gefi á bátinn í efnahagslegu tilliti þá skulum við aldrei gleyma því hversu öflug við erum sem þjóð þegar við stöndum saman. Það sama á við um okkur í Samtökum iðnaðarins, við erum öflug og sterk, við erum sameinuð og saman munum við reisa við íslenskt atvinnulíf. Missum aldrei sjónar á því að framtíð okkar er björt í öllu efnahagslegu tilliti. Við erum auðug þjóð. Við búum í stóru landi með gjöful fiskimið allt um kring, við eigum gnógt af hreinu vatni, orku og öfluga matvælaframleiðslu. En mestu auðæfin liggja þó í mannauðnum hér á landi. Því hvað stoðar það að eiga fallvötn ef skortir þekkinguna til að nýta þau og hvað stoðar það að eiga fiskimið ef okkur skortir þekkinguna til að nýta þau skynsamlega. Í störfum mínum fyrir íslenskan iðnað hef ég lagt einna mestu áherslu á menntun, nýsköpun, umhverfis- og loftslagsmál. Menntun er undirstaða alls og aukin þekking leiðir okkur áfram í leit að nýjum lausnum, nýrri sköpun. Verðmætasköpun okkar verður síðan alltaf að eiga sér stað í sátt og samlyndi við mann og umhverfið. Með öðrum orðum okkur ber skylda til að starfa með þeim hætti að við völdum hvergi skaða. Þannig sköpum við framtíð en deyjum ekki út með fortíð. Ég vil þakka ykkur félagsmönnum öllum fyrir samstarfið í gegnum árin, starfsmönnum Samtaka iðnaðarins vil ég þakka fyrir ánægjuleg samstarf og sérstaklega vil ég þakka Sigurði Hannessyni fyrir okkar samvinnu.“

Þegar Guðrún hafði lokið máli sínu afhenti Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, henni blómvönd og þakkaði fyrir gott og ánægjulegt samstarf og fyrir óeigingjarnt starf í þágu samtakanna síðastliðin 9 ár. 

IMG_8790