Fréttasafn



26. mar. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Gullhúðunin til trafala, til kostnaðar og eyðir tíma

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í kvöldfréttum RÚV að allt of algengt sé að gengið sé lengra í innleiðingu evrópskra reglugerða hér á landi en í nágrannaríkjum. Þetta skaði samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og auki kostnað um tugi milljarða króna á ári. „Það regluverk sem kemur að utan frá Evrópusambandinu, það kveður á um ákveðnar lágmarkskröfur. En í hverju ríki er svo frjálst að ganga lengra og það svigrúm hafa íslensk stjórnvöld sannarlega nýtt sér í gegnum tíðina, því miður. Og hvort að þetta sé nauðsynlegt, ég meina auðvitað eru aðstæður ólíkar í hverju ríki fyrir sig og eitthvað á mögulega rétt á sér. En ég held að stór hluti af gullhúðuninni sé því miður bara til trafala, til kostnaðar og eyðir tíma. Þetta hafi skaðað samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.“ 

Meiri kröfur gerðar til íslenskra menntatæknifyrirtækja en erlendra

Sigurður segir í fréttinni að dæmi um þetta þegar komi að menntatækni og lausnum, þá séu gerðar meiri kröfur til íslenskra fyrirtækja heldur en til erlendra fyrirtækja. „Þannig að erlendar lausnir í menntatækni eiga greiðari leið inn í kerfið hér heldur en þær lausnir sem verða til hér á landi. Og þetta er auðvitað afleidd staða. Landvernd skilaði einnig inn umsögn og þar er bent á að gullhúðun geti í mörgum tilvikum verið til fyrirmyndar, sérstaklega í umhverfismálum.“

SI ítrekað gagnrýnt að gengið sé lengra hér á landi í innleiðingu á regluverki ESB

Í frétt RÚV kemur fram að reglur um plastpokanotkun hér á landi séu til að mynda strangari og einnig reglur varðandi flokkunartunnur við íbúðarhús. Umhverfisráðherra hafi óskað eftir ábendingum um hvar gullhúðun hafi verið beitt. Í fréttinni segir að fjórtán umsagnir hafi borist, þar á meðal umsögn frá SI, sem hafi ítrekað gagnrýnt að gengið sé lengra hér á landi í innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins, meðal annars hvað varðar fjarskipti, losunarheimildir og persónuvernd. 

Hér er hægt að horfa á frétt RÚV. 

RÚV, 25. mars 2025. 

RUV-25-03-2024Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.