Fréttasafn



12. ágú. 2020 Almennar fréttir Félag íslenskra gullsmiða Iðnaður og hugverk

Gullið á uppleið

Í ViðskiptaMogganum í dag er rætt við Örnu Arnardóttur, formann Félags íslenskra gullsmiða, sem segir að ætla megi að hækkun gullverðs fari að skila sér í sérsmíðuðum vörum. Í fréttinni kemur fram að gullverð hafi í síðustu viku farið í fyrsta sinn upp fyrir 2 þúsund dali á únsuna. Það hafi hækkað mikið í ár en únsan hafi kostað til samanburðar um 1.500 dali í ársbyrjun. Arna segir að ætla megi að þessar hækkanir séu farnar að birtast í sérsmíðuðum vörum enda sé allt gull flutt inn og gengið hafi veikst. „Við í Meba erum enn að selja gull sem var keypt inn í desember og janúar. Það var allt stopp í innkaupum í febrúar, mars og apríl. Það var auðvitað lítið að gera hjá okkur í mars og apríl en um leið og slakað var á samkomubanninu fór allt af stað. Jafnframt hefur netverslun stóraukist.“ 

Þá kemur fram í fréttinni að á hinn bóginn hafi salan dregist mikið saman hjá verslunum í miðbænum þar sem stærsti hluti viðskiptavina voru ferðamenn. Hlutfall erlendra ferðamanna í veltunni hafi jafnvel verið 70%. Sömuleiðis hafi salan dregist saman í flugvélum Icelandair, í Bláa lóninu og á fjölsóttum ferðamannastöðum. 

ViðskiptaMoggi, 12. ágúst 2020.