Fréttasafn



22. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Gullsmiðurinn Ása hannar Bleiku slaufuna þetta árið

Félag íslenskra gullsmiða, sem er eitt af aðildarfélögum SI, er nú í sjötta sinn í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands um hönnun Bleiku slaufunnar sem notuð er í söfnunarátaki Krabbameinsfélagsins. Að þessu sinni er það hönnuðurinn og gullsmiðurinn Ása Gunnlaugsdóttir, asa iceland, sem er hönnuður slaufunnar í ár en slaufan verður afhjúpuð föstudaginn 29. september næstkomandi. Ása bar sigur úr býtum í samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar 2017 en í ár bárust 9 tillögur. 

Til viðbótar við hefðbundna slaufu sem seld verður um land allt verður framleitt hálsmen með silfurslaufu í takmörkuðu upplagi. Í fyrra söfnuðust um 1,8 milljónir króna aukalega til átaksins með sölu á silfurslaufunni. Öllu söfnunarfé Bleiku slaufunnar 2017 verður varið óskertu til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.