Fréttasafn23. nóv. 2018 Almennar fréttir

Hægist hratt á hagvextinum

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins ræðir Sveinn Ólafur Melsted, blaðamaður, við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um nýja greiningu samtakanna þar sem koma fram vísbendingar frá vinnumarkaðshliðinni um fjölda starfandi sem hann segir að sé góður mælikvarði og hafi mikla fylgni við hagvöxtinn. Ingólfur segir að uppi séu sterkar vísbendingar um að það sé að hægjast hratt á hagvextinum. „Aðrar vísbendingar vísa í sömu átt. Meðal annars hafa væntingakannanir meðal fyrirtækjastjórnenda bent til þess að dregið hefur úr bjartsýni þeirra með tilliti til efnahagsþróunar hér á landi undanfarna mánuði. Nýleg könnun Deloitte sýnir svo að hlutfall fjármálastjóra sem telja að hagvöxtur muni aukast á næstu tveimur árum hefur ekki mælst minna í langan tíma, eða í kringum 14% í september síðastliðinn miðað við t.d. 66% árið 2016,“ segir Ingólfur.

Mikilvægt að í hagstjórninni sé brugðist rétt við

Ingólfur segir jafnframt að sterkar vísbendingar um hægari vöxt megi einnig finna í öðrum efnahagsstærðum – svo sem veltutölum, innflutningstölum og væntingum heimilanna til efnahags- og atvinnuástandsins. „Nú er mjög mikilvægt að í hagstjórninni sé brugðist rétt við stöðunni. Þar þurfa ríkið og sveitarfélög að ganga í takt. Virkja þarf stjórntæki hins opinbera til að milda niðursveifluna og búa í haginn fyrir hagvöxt til lengri tíma. Einnig mun nú reyna á að umgjörð vinnumarkaðarins styðji við mjúka lendingu hagkerfisins. Hef ég þar talsverðar áhyggjur ef horft er til kröfugerðar verkalýðshreyfingarinnar. Við viljum að horft sé til stöðu atvinnugreina og hvaða hækkanir geta samrýmst framleiðnivexti og stöðugleika. Lítið hefur borið á þeirri viðleitni undanfarið. Nú þurfum við að huga að því hvernig við ætlum að undirbyggja aukna velmegun hér á landi litið til lengri tíma. Við hjá SI höfum nýlega lagt fram atvinnustefnu fyrir Ísland þar sem bent er á leiðir sem má fara til að efla samkeppnishæfni landsins og undirbyggja hagvöxt litið til lengri tíma. Um er að ræða tæplega 70 tillögur sem geta nýst okkur vel að fara í á næstu tveimur árum til þess að bæta lífsgæði landsmanna. Er þar verið að benda á leiðir á sviði menntunar, innviða, nýsköpunar og starfsumhverfis sem eru fjórir meginmálaflokkar sem mestu varðar um framleiðni og lífsgæði.“

Viðskiptablaðið, 22. nóvember 2018. Viðskiptablaðið, 24. nóvember 2018.

Vidskiptabladid-22-11-2018