Fréttasafn



7. apr. 2015 Mannvirki

Hægt að lækka íbúðarverð um 4-6 milljónir

 Hægt er að lækka byggingarkostnað minni íbúða um fjórar til sex milljónir króna með einföldum hætti, samkvæmt nýrri rannsókn Samtaka iðnaðarins.

Samtökin hafa metið gögn um byggingarkostnað í þeim tilgangi að lækka kostnaðinn og auka framboð á smærri íbúðum, sem vöntun er á.

Í samtali við fréttastofu Rúv segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI að verið sé að skoða raunverulegar tölur um byggingarkostnað og greina hann með tilliti til þeirra þátta sem mynda kostnaðinn. „Niðurstaðan er sú að það er ansi stórt hlutfall, um 30%, sem felur í sér liði sem opinberir aðilar geta haft áhrif á, til lækkunar á byggingarkostnaði.“

Sé dæmi tekið af byggingu 115 fermetra íbúðar í 3-4 hæða fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu nemur heildarkostnaður rúmum 36 milljónum króna. Þar af fara tæpar 26 milljónir í byggingarkostnaðinn sjálfan. Tæp fjórar og hálf milljón fer í lóðina og tæpar 4 milljónir í annað, svo sem veitu-, umsýslu- og leyfisgjöld. Loks fara tæpar 2 milljónir í að uppfylla nýja byggingarreglugerð. SI telja að hægt sé að lækka þennan kostnað um 4-6 milljónir króna.

Sjá viðtal við Almar á ruv.is