Fréttasafn14. jún. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Hækka kröfur um eiginfjárhlutfall í byggingaframkvæmdum

„Bankarnir vilja koma í veg fyrir það sem gerðist á árunum 2006 og 2007 þegar nýútskrifaðir eða jafnvel ófaglærðir voru að byggja fjölbýlishús án þess að hafa næga þekkingu eða reynslu til þess. Að því leyti skilur maður fjármálastofnanir,“ segir Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI, í Viðskiptablaðinu í dag þar sem greint er frá því að verktakar hafi að undanförnu rekið sig á að bankar hafi hækkað kröfu um eiginfjárhlutfall í byggingaframkvæmdum og farið fram á að eigið fé sé lagt fram fyrr í framkvæmdaferlinu. 

Minni áhrif á stærri verktakafyrirtæki 

Friðrik segir jafnframt í fréttinni að áhrifin séu nokkuð misjöfn eftir stöðu verktaka þar sem nýir aðilar með minna eigið fé milli handanna geti þurft að byrja á smærri verkefnum en áhrifin á stærri verktakafyrirtæki með meiri reynslu og sterkari fjárhagsstöðu séu minni. „Það er auðvitað talsvert að þurfa að leggja fram 30% af 600 til 700 milljónum króna. En þá má alveg velta fyrir sér hvort ekki megi byrja smærra.“ 

Lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu alvarlegra vandamál

Þá segist Friðrik telja lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu jafnvel alvarlegra vandamál en útlán bankanna og nefnir Hafnarfjörð sem dæmi. Hann segir verktaka í Hafnarfirði farna að leita í Voga og önnur nágrannasveitarfélög eftir lóðum þar sem enga fyrirgreiðslu sé að fá í þeirra heimabyggð. Greint er frá því að samkvæmt nýjustu talningu SI voru 150 íbúðir í byggingu í Hafnarfirði en til samanburðar voru rúmlega 400 íbúðir í byggingu í sveitarfélaginu fyrir fimm árum. Þá segir að nær tvö ár séu síðan lóðum var úthlutað í Skarðshlíð en framkvæmdir hafa þó enn ekki hafist þar.

Viðskiptablaðið, 14. júní 2018.