Fréttasafn3. jún. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hækka skatta með því að takmarka framboð á húsnæði

„Þau eru þarna að vissu leyti að hækka sína eigin skattlagningu með því að takmarka framboð á húsnæði,“ sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í kvöldfréttum RÚV þar sem fjallað er um áformaðar hækkanir fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í tengslum við hækkun fasteignamats. Ingólfur segir að um heimatilbúinn vanda sveitarfélaganna sé að ræða. Hann segir fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði háa hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Hér séu þeir 0,9 prósent af landsframleiðslu en nær 0,3 prósentum í öðrum löndum Skandinavíu. Þá dragi þeir úr samkeppnishæfni íslensk atvinnulífs og getu fyrirtækja til þess að keppa við erlenda aðila. „Þarna eru sveitarfélög að taka til sín meiri hlutdeild af verðmætasköpun fyrirtækja í landinu heldur en við sjáum í nálægum löndum.“

Rjúfa þarf samhengi milli fasteignaverðs og skattlagningar

Í  frétt Stöðvar 2 kemur fram að Ingólfur segir reglur um útreikninga fasteignaskatta afar óheppilegar „Óheppilegur vegna þess að hann beintengdir skattlagninguna við húsnæðisverðsþróun en ekki við tekjur eða verðmætasköpun sem væri eðlilegra að gera með einhverjum hætti.“ Hann segir heppilegra að rjúfa það beina samhengi sem nú er á milli fasteignarverðs og skattlagningar. Ingólfur segir fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði í Reykjavík með hæsta móti og segir borgina trega til lækkunar álagningar á atvinnuhúsnæði. „Rétt ríflega helmingur af skatttekjum sveitarfélaga, af þessari álagningu rennur í borgarsjóð. Þannig þeir eru mjög stórir í þessari skattlagningu og eru mjög tregir til þess að lækka.“

Stöð 2 / Vísir, 2. júní 2022.

Stod-2-02-06-2022