Fréttasafn



8. des. 2016 Mannvirki

Hækkanir hjá borginni fara beint út í íbúðaverð

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Árna Jóhannssyni, forstöðumanni bygginga- og mannvirkjasviðs SI, að þær verðhækkanir sem Reykjavíkurborg hefur boðað hjá umhverfis- og skipulagssviði um áramót leiði til hækkunar á íbúðaverði.

„Við erum verulega ósátt við þessar hækkanir, umfram verðlagsþróun, á sama tíma og við erum að leita allra leiða til að draga úr byggingarkostnaði,“ segir Árni í viðtali við blaðamann. Ýmis gjöld sem rukkuð eru fyrir t.d. byggingarleyfi, skipulagsvinnu, eftirlit, úttektir og vottorð hækka töluvert umfram verðlagsþróun þessa árs. Algeng hækkun á milli ára er frá tæplega 10% og upp undir 30- 40%. Dæmi eru um meiri hækkanir á einstökum gjöldum. Þá eru sett á nokkur ný gjöld. Í greinargerð borgarstjóra með tillögu að gjaldskrárbreytingum segir að gjaldskrár umhverfis- og skipulagssviðs eigi að endurspegla raunkostnað. Um síðustu áramót urðu einnig hækkanir á ýmsum gjöldum á þessu sviði borgarinnar, sem komu hart niður á byggingarverktökum og íbúðareigendum. „Þetta mun að sjálfsögðu fara út í íbúðaverðið og er ekki til þess fallið að auka framboð á nýju húsnæði, sem allir eru sammála um að full þörf sé fyrir, sér í lagi fyrir ungt fólk og kaupendur fyrstu íbúðar. Þetta styður því ekki við þá viðleitni að auka framboðið,“ segir Árni ennfremur í frétt Morgunblaðsins.

Morgunblaðið, 8. desember 2016.