Fréttasafn11. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hækkun álverðs mikil innspýting fyrir efnahagslífið hér á landi

Hækkun heimsmarkaðsverðs á áli um þrjátíu prósent frá því í fyrra er mikil innspýting fyrir efnahagslífið og afar góð tíðindi fyrir áliðnaðinn hérlendis og íslensku orkufyrirtækin. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, meðal annars í frétt Kristjáns Más Unnarssonar á Stöð 2 um helgina. Heimsmarkaðsverð á áli var á síðasta ári að meðaltali í kringum 1.600 dollarar tonnið en er nú komið yfir 2.100 dollara. Pétur segir hækkunina meðal annars skýrast af aukinni notkun áls í bílaframleiðslu en ál sé notað til að létta bílana. Hann segir útflutning áls nema yfir 200 milljörðum króna á ári og þar af falli um 90 milljarðar króna til á Íslandi, mest til orkufyrirtækjanna, sem eigi mikið undir því að álverð haldist hátt. „Þau eru öll tengd álverði á einhvern hátt þótt dregið hafi úr því á síðustu árum. Þannig að þetta eru mjög góð tíðindi þar líka,” segir Pétur.

Stöð 2/Vísir, 9. september 2017.