Fréttasafn



21. feb. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Hækkun rannsókna- og þróunarútgjalda eru mikil tíðindi

„Þetta eru mikil tíðindi fyrir íslenskt efnahagslíf. Segja má að atvinnulífið hafi tekið rækilega við sér þegar auknir skattahvatar tóku gildi árið 2020. Uppskeran af aðgerðum stjórnvalda og drifkrafti í íslenskum iðnaði, ekki síst hugverkaiðnaði, eru að koma fram,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í samtali við Innherja en útgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs hafa ekki verið meiri frá því mælingar hófust árið 2014. 

Í frétt Innherja kemur fram að heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2021 hafi numið rúmlega 91 milljarði króna og það jafngildi 2,80% af vergri landsframleiðslu, mikill meirihluti fjárfestingar í rannsóknum og þróun komi frá atvinnulífi eða um 60 af 90 milljörðum.

„Hagsæld þjóða til lengri tíma helst í hendur við fjárfestingu í rannsóknum og þróun, með öðrum orðum í nýsköpun. Mörg ríki horfa til þess að ná þeirri fjárfestingu upp í þrjú prósent af landsframleiðslu og það hafa íslensk stjórnvöld einnig gert. Við höfum átt langt í land en með óbilandi drifkrafti frumkvöðla og bættri umgjörð sem íslensk stjórnvöld hafa stuðlað að, meðal annars auknum skattahvötum, höfum við nú færst nær þessu mikilvæga markmiði.“ Þá segir í fréttinni að Sigríður veki athygli á að fjárfesting í nýsköpun sé „ávísun á verðmætasköpun og útflutningstekjur“ og þar með hagvöxt, „þetta gefur því tilefni til bjartsýni á framtíðarhorfum.” 

Innherji, 20. febrúar 2023.