Fréttasafn



30. okt. 2017 Almennar fréttir

Hærri skattar myndu auka niðursveifluna í hagkerfinu

Í Morgunblaðinu um helgina var fjallað um mögulegar skattahækkanir sem margir flokkar boðuðu fyrir kosningar. Þar segir að verði tillögur stjornmálaflokkanna í skattamálum að veruleika eftir kosningar gæti það haft víðtæk áhrif, meðal annars á hagvöxtinn. Í fréttinni er haft eftir Ingólfi Bender, aðalhagfræðingi SI, að boðaðar skattahækkanir hafi afleiðingar. „Það er fyrirséð að á næstunni muni draga úr hagvexti hér á landi og að samhliða dragi úr spennunni í hagkerfinu, atvinnuleysi aukast og framleiðsluþættir losna. Væntanlega mun aðstaða efnahagsmála á næsta kjörtímabili því breytast nokkuð frá því sem verið hefur varðandi þörf á aðhaldi í hagstjórn. Þannig verða aðstæður betri til að fara í aðgerðir til að létta íþyngjandi skatta á fólk og fyrirtæki án þess að það útheimti sparnaðaraðgerðir á útgjaldahlið ríkisfjármála,“ segir Ingólfur sem telur hugmyndir um skattahækkanir„úr takti“ við stöðuna. „Slíkt myndi einungis auka á niðursveifluna og gera lendingu hagkerfisins harkalegri.“

Í fréttinni sem Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar er einnig rætt við hagfræðingana Ásgeir Jónsson og Yngva Harðarson. 

Morgunblaðið, 28. október 2017. mbl.is