Fréttasafn10. feb. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi

Hagkerfið sem fór inn í kófið kemur ekki óbreytt út

Rætt er við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í morgunþættinum Bítinu á Bylgjunni þar sem hún er spurð um orð Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, þegar hann var í þættinum og ræddi meðal annars um að hagkerfið eftir kórónuveirufaraldurinn væri ekki það sama og fyrir faraldurinn, leggja ætti aukna áherslu á nýsköpun og hugverkaiðnaðinn og hlaupa þyrfti hraðar til að sækja tækifærin. „Ég held það sé alveg rétt hjá Sigurði að við getum ekki reiknað með því að hagkerfið sem fór inn í kófið komi óbreytt út. Ég held að það sé algjörlega rétt hugsun og það er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að horfa til nýsköpunar og hugverkaiðnaðar í gegnum þetta núna, þessar aðgerðir. Auðvitað sá maður ekki fyrir hversu langt þetta yrði en þetta er nú orðið heilt ár sem við erum búin að standa í þessu,“ segir Katrín í þættinum.

Getum örugglega hlaupið hraðar

Katrín segir það hafa komið sér vel að búið var að marka þá stefnu að styðja meira við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar á þessu kjörtímabili. „Það var hægt að byggja á því og við erum búin að vera bæði að styðja betur við rannsóknir í gegnum þessa sjóði, samkeppnissjóði, rannsóknarsjóði og Tækniþróunarsjóð. Við erum líka búin að vera að hækka endurgreiðslu til fyrirtækja sem er að sinna rannsóknum. Það er auðvitað aðgerð sem munar mjög miklu um fyrir þessi fyrirtæki, endurgreiðsluhlutfallið var hækkað úr 25% í 35% og síðan var þakið hækkað, fór úr 300 í 600 milljónir og svo í 1.100 milljónir þegar COVID kom. Þannig að það er ýmislegt, svo er þessi nýi vísisjóður, fjárfestingarsjóður Kríu, sem er ætlað að sem millistykki í stuðningsumhverfi nýsköpunar.“ Hún segir Kríu vera sérstakt úrræði sem hafi verið sett á laggirnar vegna COVID. „Við vissum þegar við tókum við á þessu kjörtímabili að það var margt sem þurfti að gera í stuðningsumhverfi nýsköpunar og kófið hefur orðið til þess að við höfum unnið hraðar. Getum við hlaupið hraðar? Alveg örugglega.“

Hvetja til erlendra fjárfestinga í grænum málum

Katrín er einnig spurð um erlenda fjárfestingu stórfyrirtækja og nefnt sem dæmi Dani sem hafa fengið til sín Google. „Að laða til okkar erlendar fjárfestingar finnst mér áhugaverð umræða.“ Hún segir að reyndar hafi fjárfestingar einkaaðila á árinu 2020 aukist frá 2019 og hafi numið17 milljörðum árið 2020 en færri fjárfestingar.  „En það má spyrja sig hvað er það sem við getum gert betur. Það er líka búið að vera að reyna að laða hingað til lands erlenda sérfræðinga með sérstöku úrræði sem nefnt er Work in Iceland. Það er eitt af því sem nýsköpunarfyrirtækin hér hafa sagt vera hindrun að geta ekki fengið erlenda sérfræðinga hingað til starfa. Þannig að það er búið að vera að fara markvisst í þessa þætti.“ Hún segir að þá komi að þessu næsta þrepi sem Sigurður sé að nefna sem séu fjárfestingar einkaaðila. Þá nefnir hún að úrræði sem ekki sé komið en sé til meðferðar á Alþingi. „Það eru skattaívilnanir, annars vegar fyrir fjárfestingar og svo meiri ívilnanir fyrir það sem við köllum grænar fjárfestingar. Við erum að sjá gríðarlega hreyfingu í grænu málunum, grænum lausnum. Hvernig ætlum við að ná markmiðum um samdrátt í losun, hvernig ætlum við að þróa þetta hringrásarhagkerfi og hvernig ætlum við að binda kolefni þannig að þar erum við að reyna að hvetja til þessara fjárfestinga.“ Hún nefnir að atvinnuvegaráðuneytið og Íslandsstofa séu að vinna að því að fá erlendar fjárfestingar og það sé mikilvægt að ýta undir erlenda einkafjárfestingu. 

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Katrínu í heild sinni.