Fréttasafn



8. feb. 2021 Almennar fréttir

Hugverkaiðnaður er raunveruleg stoð í hagkerfinu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í morgunþætti Bylgjunnar Í bítinu að ekki verði hægt að reisa hagkerfið í þeirri mynd sem það var fyrir heimsfaraldur COVID-19. Í viðtali við Heimir Karlsson og Gunnlaug Helgason segir Sigurður að áður en faraldurinn hafi skollið á hafi verið óljóst hvað mundi drífa hagvöxtinn til lengri tíma því okkar helstu útflutningsgreinar sem hafa verið sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta hafi vaxið talsvert mikið en sé ekki að fara að vaxa svo hratt á næstunni vegna þess að þær byggi á auðlindanýtingu og við komum að þolmörkum á einhverjum tímapunkti. „Þá þurfum við að hugsa um eitthvað nýtt til 10, 20, 30 ára. Hvernig við ætlum að skapa vermæti og ný og eftirsótt störf og það gerum við með hugverkaiðnaði, hugverkaiðnaðurinn er fjórða stoðin í útflutningshagkerfinu.“ Hann segir að hugverkaiðnaðinn hafa verið stærri en ferðaþjónustan í fyrra og þarna sé komin raunveruleg stoð í hagkerfinu. „Og má kannski segja að þetta eitthvað annað sem menn hafa talað um í lengri tíma sé loksins orðið að veruleika.“ 

Fyrirtæki sem geta tekið stökkið og vaxið mjög mikið

Sigurður segir einkennandi greinar hugverkaiðnaður vera heilbrigðistækni, líftækni, tölvuleikir, upplýsingatækni og hátækniiðnaður. Hann nefnir fyrirtæki eins og Marel og Össur sem séu fræg dæmi og tölvuleikjafyrirtækið CCP. „En það eru líka fullt af sprotum og minni fyrirtækjum sem eru komin á þann stað að þau geti tekið stökkið fljótlega og vaxið mjög mikið. Við höfum heyrt nýlega dæmi eins og Controlant sem kemur mjög að flutningi bóluefna, Kerecis sem vinnur sáraumbúðir úr fiskroði, Coripharma sem er nýlegt fyrirtæki sem framleiðir samheitalyf og Alvotech, ef að þeirra áætlanir ganga eftir þá er það stærsta útflutningsfyrirtæki landsins eftir nokkur ár. Við sjáum alveg til lands þarna. Við erum ekki að byrja á byrjunarreit og þurfum svo að bíða í 10-20 ár eftir að eitthvað gerist.“

Sigurður segir að bæði þurfum við að ýta undir það að við virkjum hugvitið í meira mæli því það sé okkar stærsta auðlind þannig að það verði til ný tækifæri en við þurfum líka að passa upp það að þessi fyrirtæki sem voru stofnuð fyrir einhverjum árum síðan að einhver þeirra geti vaxið og tekið stökkið.

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.