Hagsmunir almennings og sveitarfélaga fara ekki saman
„Þarna fara ekki saman hagsmunir almennings af því að fá hagkvæmt húsnæði og hagsmunir sveitarfélaga sem eru að reyna að fá sem mestar skatttekjur. Hljóð og mynd fara einfaldlega ekki saman,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, um álögur á nýbyggingar sem hafa aukist mikið á síðustu árum og eru stór tekjuliður hjá stærstu sveitarfélögum landsins líkt og kemur fram í nýrri greiningu SI. Hún bendir á að það sé kallað eftir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði, en á sama tíma hafi skattheimta stærstu sveitarfélaganna af uppbyggingu íbúða hækkað langt umfram almennt verðlag.
Kallað eftir að sveitarfélögin endurskoði álögur
Jóhanna nefnir einnig í frétt Morgunblaðsins að SI hafi í langan tíma bent á að til þess að jafnvægi verði náð á húsnæðismarkaði verði að tryggja nægt framboð á byggingarhæfum lóðum auk þess sem stilla þarf gjaldtöku hins opinbera í hóf. „Á þessu ári er sem dæmi áætluð gjaldtaka vegna gatnagerðar og byggingarréttar á 100 fm íbúð í fjölbýli með stæði í bílakjallara 13,2 milljónir króna í Reykjavík og 12 milljónir króna í Kópavogi, það munar um minna. Við sjáum jafnvel að í nýju hverfi í Reykjavík geta bara byggingaréttargjöldin numið allt að 16 milljónum króna á íbúð.“ Í fréttinni kemur fram að SI kalli eftir því að sveitarfélögin endurskoði þessar álögur.
Morgunblaðið, 12. desember 2025.

