Fréttasafn



4. apr. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hagsmunir RÚV á kostnað kvikmyndaframleiðenda

„Við höfum síðastliðið ár leitað eftir svörum frá RÚV á útfærslu þeirra sem meðframleiðanda án þess að fá fullnægjandi svör við þeim álitaefnum sem við höfum sett fram. Samningagerðin, sem þjónar hagsmunum RÚV, er á kostnað sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda þar sem RÚV hefur krafist stærri hlutdeildar í verkefnum en þátttaka þeirra gefur tilefni til,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um samningsskilmála RÚV gagnvart sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum þar sem gerð er krafa um meðframleiðsla. En samkvæmt lögfræðiáliti sem gert var fyrir Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtök iðnaðarins stangist skilmálarnir á við reglur um Evrópustyrki og reglur um endurgreiðslur á Íslandi og að lögfræðiálitið sé skýrt um að útfærsla RÚV á hlutverki sínu sem framleiðanda geti sett fjármögnunarkerfi sjálfstæðra framleiðenda í uppnám. 

Í fréttinni segir Sigríður jafnframt að mestu skipti að greiða úr þeirri óvissu sem útfærsla RÚV á hlutverki meðframleiðenda hefur skapað varðandi aðra fjármögnunarmöguleika sjálfstæðra framleiðenda. „RÚV er í mjög sterkri stöðu á þessum markaði og teljum við hlutverk þeirra sem meðframleiðanda ganga of langt miðað við að um er að ræða opinbert félag.“ Þá segir hún það umhugsunarefni hvort RÚV sé komið í auknum mæli í samkeppnisrekstur, líkt og á auglýsingamarkaði. „og má því velta fyrir sér hvort þessi angi rekstursins eigi ekki heima í sérstöku dótturfélagi,“

RÚV fer eftir lögum og reglum segir framkvæmdastjóri miðla hjá RÚV

Í fréttinni er einnig rætt við Birgi Sigfússon, framkvæmdastjóri miðla hjá RÚV, sem segir samninga RÚV við Sagafilm og aðra framleiðendur um fjármögnun verkefna vera í góðum farvegi og að RÚV fari að sjálfsögðu eftir lögum og reglum. „Við kappkostum að tryggja að þegar RÚV leggur framleiðslu til fjármagn og verkefnið skilar hagnaði erlendis, þá renni allur ávinningur, sem RÚV á tilkall til, til frekari framleiðslu leikins efnis. Slíkt eflir íslenska kvikmyndagerð enn frekar, stuðlar að sjálfbærni og ábyrgri meðferð á opinberu fé.“ Í fréttinni segir hann það jafnframt rangt í lögfræðiálitinu að framlag RÚV til kaupa eða meðframleiðslu á efni séu opinberir styrkir, samkvæmt lögum hafi RÚV ekki heimild til að veita slíka styrki. Framlag RÚV sé undir öllum kringumstæðum ýmist hrein kaup á sýningarrétti eða blanda af kaupum á sýningarrétti og frekara framlagi. 

Í fréttinni kemur einnig fram að RÚV hafi fengið fimm ára frest árið 2013 til að setja samkeppnisrekstur í dótturfélög en ekkert bóli á þeim. Ríkisendurskoðun sé nú að gera stjórnsýsluúttekt á RÚV, þá fyrstu í 24 ár, þar verður meðal annars litið til samkeppnisreksturs. Þá segir að samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins sé það hlutverk RÚV að styrkja sjálfstæða sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerð með því að kaupa efni eða gerast meðframleiðandi. Á RÚV að verja 11 prósentum af heildartekjum sínum til þess í ár. Einnig kemur fram í fréttinni að athygli veki að ekki sé gert ráð fyrir því að RÚV hagnist á því að gerast meðframleiðandi, til dæmis ef þáttaröð er seld á erlendan markað og hagnaður myndast. 

Fréttablaðið / Frettabladid.is / Vísir, 4. apríl 2019.