Fréttasafn



3. okt. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hagstjórnaraðilar gangi í takt af áræðni og hraða

Mikilvægt er að gera réttu hlutina rétt. Gæta þarf að því að það fjármagn sem sett er í einstök málefni skili sér í bættri samkeppnishæfni og aukinni innlendri verðmætasköpun fyrirtækjum og heimilum til heilla. Mikilvægt er að huga að skilvirkni og kostnaðarlágmörkun í rekstri hins opinbera. Í því sambandi þarf að auka áherslu á árangur útgjaldaþátta hjá hinu opinbera. Með bættum árangurstengingum og forgangsröðun má tryggja betri nýtingu á skattfé landsmanna, losa um framleiðsluþætti, auka framleiðni og skapa svigrúm til skattalækkana. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í ViðskiptaMogganum Að gera það rétta rétt.

Ingólfur segir að á rétt um einu ári hafi efnahagsástandið hér á landi breyst talsvert til hins verra, í stað hagvaxtar hafi tekið við samdráttur. Breytingin hafi komið niður á bæði heimilum og fyrirtækjum, m.a. í auknu atvinnuleysi og samdrætti í tekjum. Á sama tíma og stjórnvöld hafi nýtt ríkisfjármálin til að vinna á móti niðursveiflunni hafi peningastefnunefnd Seðlabankans lækkað stýrivexti bankans og aðilar vinnumarkaðarins hafi náð kjarasamningum á almennum vinnumarkaði á fyrri hluta árs með áherslu á að halda verðbólgu lágri. Hagstjórnaraðilar hafi þannig gengið í takt í því verki að milda niðursveifluna og tryggja stöðugleika sem sé forsenda áframhaldandi velmegunar. Það sé fagnaðarefni að hagstjórnaraðilar gangi í takt í hagstjórnaraðgerðum sínum. Það er einnig fagnaðarefni að sá taktur er nú betri en oftast áður í íslenskri hagsögu en það sé hins vegar ekki nóg að ganga í takt heldur verði takturinn að vera af áræðni og nægjanlega hraður til að mýkja efnahagssamdráttinn og skapa grundvöll fyrir nýju hagvaxtarskeiði.

Hann segir að huga þurfi að öllum þeim þáttum sem kunna að mynda grunn að nýju hagvaxtarskeiði og hjálpa fyrirtækjum og heimilum að mæta efnahagssamdrættinum. Það sé mikilvægt að forgangsröðun í opinberum fjármálum endurspegli þá meginþætti sem líklegastir eru til að efla samkeppnishæfni Íslands og undirbyggja þar með bætt lífskjör landsmanna litið til framtíðar. Í greininni segir hann ánægjulegt að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga sem nú sé til umræðu á Alþingi sé áhersla á nýsköpun, menntun og fjárfestingu í innviðum. Einnig séu þar áform um umbætur í starfsumhverfi fyrirtækja. Ráði þessir þættir miklu um samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Verðmætasköpun sé drifin áfram af vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum sem uppfylla þarfir samfélagsins og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.