Fréttasafn



5. ágú. 2025 Almennar fréttir Mannvirki

Háir vextir hafa bæði áhrif á eftirspurn og framboð íbúða

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðsins að ljóst sé að vaxtastigið hafi haft veruleg áhrif á sölu íbúða en einnig hafi verð íbúða, ekki síst á þéttingarreitum, haft sitt að segja. „Kaupendur og húsbyggjendur á íbúðamarkaði hafa almennt verið að halda að sér höndum, sem hefur bæði áhrif á eftirspurn og framboð. Það er náttúrulega fyrst og fremst út af efnahagsástandinu og vaxtastiginu. Við sáum þetta skýrt í könnun sem við gerðum meðal íbúðabyggjenda, þ.e.a.s. verktaka sem eru að byggja í eigin reikning, en spurt var um ýmsa þætti. Þeir nefndu að vaxtastigið væri stærsti þátturinn í því að þeir væru að draga úr uppbyggingu íbúða og myndu gera það áfram. Niðurstaðan var um 17% fækkun íbúða í byggingu milli ára og var þó búið að hægja verulega á uppbyggingunni. Í upphafi árs 2023 voru tæplega 9.000 íbúðir í byggingu en nú eru þær tæplega 6.000 og útlit fyrir enn meiri fækkun á næstu tólf mánuðum, eða í rétt ríflega 5.000. Meginástæðan er vaxtastigið, enda hefur hár vaxtakostnaður bæði áhrif á húsbyggjendur og íbúðakaupendur. Þótt Seðlabankinn sé byrjaður að lækka vexti eru raunstýrivextir enn mjög háir. Þannig að aðhald peningamála er mikið, sem kemur fram á íbúðamarkaðnum.“ 

Lóðaskortur og hækkun á sköttum hafa umtalsverð áhrif

Ingólfur segir jafnframt í fréttinni að lóðaskortur og hækkun á opinberum sköttum og gjöldum á húsbyggjendur hafi líka umtalsverð áhrif. Í fréttinni kemur fram að þétting byggðar kalli jafnan á uppkaup og niðurrif á eldra húsnæði með tilheyrandi fjármagnskostnaði yfir langt tímabil. Þegar Ingólfur er spurður hvort ekki sé óhjákvæmilegt að nýjar íbúðir á slíkum reitum verði talsvert dýrari en íbúðir almennt svarar hann: „Skipulagsmálin eru klárlega mikill áhrifaþáttur og hvort uppbyggingin er í takt við eftirspurn. Samkvæmt ofangreindri könnun segja 24% verktakanna að sölutími nýrra íbúða hafi lengst undanfarna mánuði vegna þess að þær henta ekki því sem íbúðakaupendur eru að sækjast eftir. Einnig skiptir miklu að opinberir skattar og gjöld á húsbyggjendur hafa hækkað umtalsvert undanfarið. Hins vegar segja 95% verktakanna að háir vextir séu ástæða þess að hægt hafi á sölu íbúða undanfarið. Vaxtastigið er því ráðandi þáttur í þessari þróun. Sölutími nýrra íbúða hefur verið að lengjast og það hamlar í sjálfu sér frekari íbúðauppbyggingu, sérstaklega í þessu vaxtaumhverfi. Verktakar þurfa náttúrulega að getað losað fjármagn sem bundið er í þeim eignum sem þeir eru þegar með í uppbyggingu til að geta byrjað á nýjum verkefnum. Ég tel að lækkun á raunstýrivöxtum sé lykilþátturinn í því að koma þessum markaði af stað að nýju.“

Morgunblaðið, 19. júlí 2025.

Morgunbladid-19-07-2025