Fréttasafn25. maí 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Háir vextir þýða að of fáar íbúðir munu koma inn á markaðinn

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Bítinu á Bylgjunni að vaxtahækkun Seðlabankans hafi verið umfram það sem Samtök iðnaðarins bjuggust við. „Þetta var meira en við áttum von á. Hagspáin sem Seðlabankinn birtir dregur upp dökka mynd. Ef við horfum á samhengi hlutanna þarna, þá erum við stödd í ákveðnum vítahring. Það voru of fáar íbúðir byggðar á 10 ára tímabili eða svo, við náðum okkur á sæmilegt strik á allra síðustu árum en þessi staða að of fáar íbúðir voru byggðar gerði það að verkum að eftirspurning jókst og hækkaði verðið og það leiddi til verðbólgu. Seðlabankinn bregst við með því að hækka vexti og nú er svo komið að vextirnir eru orðnir það háir og íþyngjandi að allar líkur eru á því að það verði mun minni umsvif og uppbygging sem þýðir að of fáar íbúðir munu koma inn á markaðinn í framtíðinni.“ Sigurður segir að það hafi verið erfið staða 2010-2015. „Uppbyggingin  fór alltof hægt af stað og það tók of mörg ár að fá eins og sveitarfélögin til þess að átta sig á stöðunni.“

Sigurður segir að Seðlabankinn hafi fært rök fyrir þessari hækkun og þar á meðal séu launahækkanir að valda þenslu. „Vandamálið þarna er Seðlabankinn er að reyna að slá á eftirspurn og það hefur tekist vel á húsnæðismarkaðnum. Við sjáum það að fleiri eignir eru til sölu, sölutíminn hefur lengst og svo framvegis. Það er erfiðara að kaupa sér fasteign. Það þýðir líka það að færri íbúðir verða byggðar. Það eru mikil umsvif núna en við spurðum okkar félagsmenn að því hvernig horfurnar væru. 88% þeirra sem svöruðu sögðu að hærri fjármagnskostnaður mundi draga úr umsvifum. Skilaboðin verða ekki skýrari. Það var fyrir þessa vaxtahækkun og Seðlabankinn hefur boðið fleiri vaxtahækkanir.“ Sigurður segir að Samtök iðnaðarins og félagsmenn hafi talað lengi fyrir því að það þurfi að auka uppbygginguna en að sveitarfélögin hafi brugðist hægt við þó sum hafi staðið sig mjög vel.

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.