Fréttasafn



13. mar. 2019 Almennar fréttir

Háir vextir veikja samkeppnishæfnina

Marel er að fjármagna sig á 1-2% vöxtum og nýjasta fjármögnun fyrirtækisins er á 1,1% vöxtum. Þetta kom meðal annars fram í máli Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel, í pallborðsumræðum á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem fram fór í síðustu viku. Þar sagði Árni að íslensk iðnfyrirtæki, sem flest hver eru að fjármagna sig á mun hærri vöxtum hér á landi, séu í samkeppni við þetta. „Það sem meira er að af því að vaxtarstigið er svo hátt á Íslandi þá þurfum við að borga fólkinu okkar 120% af launum í Evrópu til þess að það sé jafn sett.“ 

Vegna hárra innlendra vaxta þarf að borga hverja íbúð þrisvar sinnum

Árni sagði jafnframt að vegna hárra innlendra vaxta þurfi fólkið hér að borga hverja íbúð þrisvar sinnum á meðan fólk í Danmörku, Svíþjóð og víðar þurfi að borga íbúð sína einu og hálfu sinnum. „Þannig að við byrjum á að borga hærri laun en fólkið okkar er ekkert betur sett. Síðan ert þú á smáum markaði hér og þar býrð þú við háan fjármagnskostnað við að fjármagna tækin þín líka. Þannig að ég ber svakalega virðingu fyrir því hvað er að gerast hér í ekki allt of góðum skilyrðum á margan hátt.“ 

Ísland horfi á nýsköpun sem megindrifkraft

Í pallborðsumræðunum kom einnig fram í máli Árna að Marel væri með 12% starfsmanna fyrirtækisins hér á landi eða 700 manns þrátt fyrir að ekki nema 1% tekna fyrirtækisins væri aflað hér á landi. Ástæða þess að fyrirtækið er með þetta mikið af starfsemi sinni hér á landi er að fyrirtækið er að vinna náið með viðskiptavinum fyrirtækisins í nýsköpun. Hann sagði að þúsund starfsmenn í Marel væru í nýsköpun og þar af 200 hér á landi. Leggur fyrirtækið 10 milljarða á ári í nýsköpun. Hann sagði fyrirtækið byggja á nálægðinni við viðskiptavinina og klasanum sem sé til staðar hér á landi. Höfuðstöðvar fyrirtækisins séu hér og nýsköpunarmiðstöð fyrirtækisins sé hér og framleiðslan til að styðja við nýsköpunina. Árni sagðist hafa sterka trú á því að Ísland eigi að horfa á nýsköpun sem megindrifkraft og nota framleiðslu til að styðja það. „Við eigum að vera hreykin af því að hlutir séu hannaðir hér þó að þeir séu ekki alltaf gerðir hér.“  

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á upptöku af pallborðsumræðunum á Iðnþingi 2019:

https://vimeo.com/322141618

Si_idnthing_silfurberg-29