Hátt í 700 nemendur kynntu sér menntun á starfamessu
Starfamessa fór fram í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra fimmtudaginn 20. nóvember þar sem hátt í 700 nemendur úr 9. og 10. bekk grunnskóla og framhaldsskólanemar á svæðinu mættu og kynntu sér fjölbreytt tækifæri í námi og starfi. SSNV stóð að viðburðinum í samstarfi við fjölda fyrirtækja, stofnana og menntasetrum, og er hann eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Norðurlands vestra 2025. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, kynnti fjölmörg fyrirtæki innan raða SI og þann skort á starfsfólki sem er í iðnaði og tækni- og hugverkaiðnaði.
Sérstaklega mikill áhugi var á iðngreinum og STEAM-sviðum, sköpun, vísindum og framtíðartækni þar sem bæði atvinnulíf og fræðsluaðilar lögðu áherslu á að tækifærin eru óteljandi á næstu árum. Í iðngreinum er eftirspurn eftir sérhæfðu starfsfólki þegar mjög mikil og nemendur fengu að sjá hvernig áþreifanleg færni leiðir beint til starfa og góðra starfsþróunarmöguleika. Áherslur STEAM-sviðsins voru einnig áberandi, en þar blönduðust saman tækni, hönnun, nýsköpun og lausnir framtíðarinnar, sem kynnt var sem frábær undirbúningur fyrir háskólanám og alþjóðleg iðnaðarstörf.
Hulda Birna segir að markmið messunnar hafi verið að skapa lifandi samtal milli nemenda og atvinnulífsins og varpa ljósi á hvaða menntun og hæfni skiptir máli í framtíðarstörfum. Viðmælendur á staðnum hafi lagt áherslu á að þau sem velja nám tengt hönnun, tækni, nýsköpun og iðngreinum standi sterkir á vinnumarkaði á komandi árum. Hún segir að starfamessan hafi vakið mikla athygli og sýni skýrt að áhugi ungs fólks á störfum sem snúa að smíði, forritun, hönnun, tækni, skapandi greinum og umhverfislausnum fari vaxandi. Með messunni hafi nemendur fengið raunverulega innsýn í nám, störf og fjölbreytt framtíðartækifæri – og mörg þeirra sögðu daginn hafa kveikt nýjar hugmyndir um hvað þau vilja verða.




