Hefði viljað sjá meira aðhald í fjárlagafrumvarpinu
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í fréttum RÚV um nýtt fjárlagafrumvarp sem lagt hefur verið fram: „Svona heilt yfir slær þetta okkur ágætlega, þarna eru jákvæðir punktar sem að við fögnum og ýmsar áherslur. En við tökum hins vegar undir með ráðherra og stjórnvöldum um það að meginverkefnið er auðvitað að ná niður verðbólgu og vöxtum.“
Sýna ætti meira aðhald í fjölgun opinberra starfa
Í frétt RÚV kemur fram að það sé mat Sigurðar að það hefði mátt sýna meira aðhald í ríkisfjármálum. „Sérstaklega varðandi fjölgun opinberra starfa, sem myndi létta spennu af vinnumarkaðnum og skapa forsendur fyrir lægri vöxtum. En hafandi sagt það, þá er auðvitað jákvætt að sjá auknu fé varið til dæmis til verknámsskóla, til iðnnáms, til þess að taka við fleiri nemendum. Við vitum að fjölmörgum umsóknum hefur verið hafnað undanfarin ár, allt upp í eitt þúsund á ári.“
Jákvætt að sjá áframhaldandi skattahvata fyrir R&Þ og aukna fjárfestingu í samgönguinnviðum
Þá kemur fram í frétt RÚV að Sigurður nefni einnig að jákvætt sé að sjá áframhaldandi skattahvata fyrir rannsóknir og þróun, fyrir hugverkaiðnaðinn. „Það er fjórða stoð útflutnings og gæti orðið verðmætasta útflutningsstoðin við lok áratugarins.“ Hann segir einnig jákvætt að sjá aukna fjárfestingu í samgönguinnviðum. „Ástand þeirra er orðið bágborið víða um land.“
Átti von á auknu aðhaldi miðað við stöðuna í hagkerfinu
Jafnframt kemur fram í frétt RÚV að margt í stefnumörkun stjórnvalda styðji við framboðshlið hagkerfisins, það sé það sem stjórnvöld eigi að huga að. „En það kannski svona heilt yfir sem maður vill nefna á hinni hliðinni er að maður hefði kannski átt von á auknu aðhaldi með hliðsjón af stöðunni í hagkerfinu.“
RÚV, 10. september 2024.