Fréttasafn26. mar. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Hefði viljað sjá meiri áherslu á nýsköpun í átaki stjórnvalda

„Við hefðum viljað sjá eitthvað varðandi byggingamarkaðinn sem er að nálgast frostmark, þar eru atriði eins og hlutdeildarlán sem myndi hjálpa til. Við hefðum líka viljað sjá meiri áherslu á nýsköpun og skapandi greinar,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í hádegisfréttum RÚV um tillögu fjármálaráðherra um 15 milljarða framkvæmdaátak á þessu ári til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu vegna COVID-19. Stærsti hluti þess verður í samgöngumannvirkjum en einnig fara tveir milljarðar í viðhald og endurbætur fasteigna. 

Í fréttinni kemur fram að Alþingi komi saman klukkan hálf tvö þar sem fjármálaráðherra mælir fyrir þingsályktunartillögu um framkvæmdaátakið. Stærsti hluti 15 milljarðanna fari í samgöngumannvirki, þar af tæpir 5 í vega- og brúargerð og viðhald vega, rúmur hálfur milljarður fari í flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum, 2 milljarðar fari í viðhald og endurbætur fasteigna, 700 í nýbyggingar og 350 í framkvæmdir við ofanflóðavarnir.

Nýsköpun leikur lykilhlutverk

Sigurður segir jákvætt hve stjórnvöld bregðist hratt við og að þau hafi lýst því yfir að meira verði gert ef þarf. Hins vegar hefði hann viljað sjá enn frekari fjárfestingar og að þær væru með aðeins öðrum hætti. Til að mynda með auknum framlögum í tækniþróunarsjóð og endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar og einnig kvikmyndaframleiðslu. Þetta væru verkefni sem myndu skila árangri hratt, verja störf og skapa verðmæti í landinu. Hann segir að of mikil áhersla hafi verið á vöxt í einni grein í einu, fjármálaþjónustan á fyrsta áratugi aldarinnar og ferðaþjónustan á öðrum. „En núna er tækifærið að fjölga eggjunum í körfunni og vera með aðeins dreifðari samsetningu og þar leikur nýsköpun lykilhlutverk.“

RÚV, 26. mars 2020.