Fréttasafn9. júl. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Hefja vinnu við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland

„Nýsköpun í fyrirtækjum, hvort sem er í sprotafyrirtækjum eða rótgrónum fyrirtækjum, er meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni og nýsköpun innan fyrirtækja og stofnanna er forsenda fyrir bættu samfélagi. Það er okkur því lífsnauðsynlegt að Ísland sé og verði nýsköpunardrifið samfélag, einmitt vegna þess að nýsköpun skilar arði til samfélagsins.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, í blaði um nýsköpun sem fylgdi Fréttablaðinu í síðustu viku en ráðuneytið er að hefja vinnu við heildstæða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.

Thordis-kolbrunÍ viðtalinu segir ráðherra jafnframt að þegar litið sé á alþjóðlegar skýrslur um samkeppnishæfni megi segja að Ísland standi nokkuð vel að vígi í alþjóðlegum samanburði. Helstu styrkleikar Íslands í samanburði við ríki Evrópusambandsins séu taldir vera nýsköpunarvænt umhverfi, rannsóknarkerfi, frumkvöðlahugsun og mannauður en veikleikar okkar séu m.a. taldir snúa að sölu og markaðssetningu, hugverkaréttindum og fjármögnunarumhverfi. „Hjá ráðuneytinu erum við einmitt að greina þessa þætti nánar í tengslum við það starf sem er að hefjast um mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu.“ 

 

 

Hér er hægt að nálgast blað Fréttablaðsins um nýsköpun og lesa viðtalið við ráðherrann í heild sinni. 

Fréttablaðið, 4. júlí 2018.