Hefur áhyggur af stöðu faglærðra húsgagnabólstrara
„Töluvert hefur borið á því að ófaglærðir séu að auglýsa bólstrun og taka að sér verkefni gegn greiðslu. Húsgagnabólstrun er löggilt iðngrein og því er það brot á lögum að ófaglærðir auglýsi og taki að sér slík verkefni,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, bólstrari á Selfossi og formaður Félags húsgagnabólstrara á Íslandi, í viðtali við sunnlenska.is. Berglind sem rekur fyrirtækið Bólsturlist hefur áhyggjur af stöðu faglærðra húsgagnabólstrara á Íslandi en ófaglærðir hafa í auknum mæli tekið að sér að bólstra húsgögn fyrir fólk gegn greiðslu. Í viðtalinu kemur fram að mikil gróska er í Félagi húsgagnabólstrara á Íslandi en félagið fagnar 100 ára afmæli eftir þrjú ár. Formaður félagsins er Berglind Hafsteinsdóttir, bólstrari á Selfossi, en hún rekur fyrirtækið Bólsturlist við góðan orðstír.
Með því að versla á Íslandi og í heimabyggð styðjum við íslenska framleiðslu
Í viðtalinu kemur fram að Berglind hvetji einstaklinga og fyrirtæki til þess að versla við löggilta fagmenn, hvort sem það er í húsgagnabólstrun eða öðrum iðngreinum. „Það er mikilvægt að kynna sér vel bakgrunn og menntun iðnaðarmanna áður en slíkur einstaklingur er ráðinn til vinnu. Sérstaklega vil ég leggja áherslu á mína iðngrein, húsgagnabólstrun, er löggilt iðngrein sem margra ára nám liggur á bak við. Það skiptir máli að við veljum faglærða aðila, ekki bara til að tryggja vandað verk, heldur líka til að styðja við atvinnulíf, iðngreinar og handverk sem byggir á sérhæfðri þekkingu, metnaði og reynslu. Með því að versla á Íslandi og í heimabyggð styðjum við íslenska framleiðslu, leggjum okkar af mörkum við að byggja upp sterkari og sjálfbærari samfélög um allt land og tryggjum að fagmennska og handverk haldi áfram að dafna,“ segir Berglind meðal annars í viðtalinu.
Á vef Sunnlenska er hægt að lesa viðtalið við Berglindi.
Á myndinni hér fyrir ofan er stjórn Félags húsgagnabólstrara og Berglind Hafsteinsdóttir, formaður, er fyrir miðri mynd ásamt Heiðu Harðardóttur, gjaldkera, og Ásdísi Birgisdóttur, ritara.