Heimsókn í ÁK Smíði á Akureyri
Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, heimsótti nýverið fyrirtækið ÁK Smíði á Akureyri. Ármann Ketilsson, einn eigenda fyrirtækisins og formaður Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi, tók á móti Huldu Birnu og ræddi þar meðal annars stöðu iðnmenntunar á svæðinu, samstarf við atvinnulífið og komandi uppbyggingarverkefni.
Skortur á aðgengi að iðnnámi fyrir eldri nemendur
Í heimsókninni kom fram að eitt helsta viðfangsefni í iðnmenntun á Norðurlandi er skortur á úrræðum fyrir eldri nemendur sem vilja hefja nám í iðngreinum. Ármann benti á að dæmi væru um einstaklinga sem fengju synjun við umsóknum sínum allt að fimm sinnum í röð áður en þeir neyddust til að leita námstækifæra annars staðar á landinu. Þá hafa einnig komið upp tilvik þar sem konur með stúdentspróf hafa ekki komist að í iðnnám, þrátt fyrir áhuga og viljastyrk.
Uppbygging fram undan á svæðinu
Umfangsmikil uppbyggingarverkefni eru fram undan á Norðurlandi, sem kalla á fjölbreyttan og vel menntaðan vinnuafl. Til að mæta þeirri eftirspurn þarf að tryggja aðgengi að námi fyrir alla aldurshópa og nýta mannauðinn sem þegar hefur sýnt iðnnámi áhuga.
Mikilvægi iðnmenntunar í sterku atvinnulífi
Á fundinum kom fram að Samtök iðnaðarins leggi mikla áherslu á að styrkja iðnmenntun um land allt og tryggja aðgengi að námi fyrir ólíka hópa. Góð tenging milli skóla og atvinnulífs, fjölbreytt námsúrræði og sveigjanleiki væru lykilatriði í að efla íslenskan iðnað og tryggja framtíðarþarfir byggingargeirans.

