25. ágú. 2023 Almennar fréttir Félag vinnuvélaeigenda Mannvirki

Heimsókn í Borgarverk

Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, heimsótti Borgarverk, aðildarfyrirtæki samtakanna og Félags vinnuvélaeigenda, í dag. Óskar Sigvaldason og Atli Þór Jóhannsson, fráfarandi og verðandi framkvæmdastjórar félagsins, tóku á móti Bjartmari og fóru yfir helstu breytingar þess að undanförnu en Óskar hefur nú selt eignarhlut sinn í félaginu til meðeiganda síns, Kristins Sigvaldasonar, sem á félagið nú að fullu. Atla Þór verður ætlað að taka við hlutverki Óskars sem framkvæmdastjóra félagsins og hafa eigenda- og hlutverkaskiptin gengið framar vonum að þeirra sögn.

Borgarverk hefur vaxið á undanförnum árum og áratugum og telst í dag til einna stærstu jarð- og vegavinnuverktakafyrirtækja landsins. Fyrirtækið var stofnað í Borgarnesi í byrjun ársins 1974 en aðdraganda stofnunar þess má rekja aftur til ársins 1955 þegar Sigvaldi Arason, faðir Óskar Sigvaldasonar, stofnaði til verktakareksturs í eigin nafni. Höfuðstöðvar félagsins eru áfram í Borgarnesi en auk hennar er starfsstöð á Selfossi og skrifstofur í Mosfellsbæ. Starfsmannafjöldinn er breytilegur eftir árstíma en þegar mest lætur yfir sumartímann eru starfsmenn rúmlega 130 talsins.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Bjartmar Steinn Guðjónsson, Atli Þór Jóhannsson og Óskar Sigvaldason.


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.