Fréttasafn25. ágú. 2023 Almennar fréttir Félag vinnuvélaeigenda Mannvirki

Heimsókn í Borgarverk

Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, heimsótti Borgarverk, aðildarfyrirtæki samtakanna og Félags vinnuvélaeigenda, í dag. Óskar Sigvaldason og Atli Þór Jóhannsson, fráfarandi og verðandi framkvæmdastjórar félagsins, tóku á móti Bjartmari og fóru yfir helstu breytingar þess að undanförnu en Óskar hefur nú selt eignarhlut sinn í félaginu til meðeiganda síns, Kristins Sigvaldasonar, sem á félagið nú að fullu. Atla Þór verður ætlað að taka við hlutverki Óskars sem framkvæmdastjóra félagsins og hafa eigenda- og hlutverkaskiptin gengið framar vonum að þeirra sögn.

Borgarverk hefur vaxið á undanförnum árum og áratugum og telst í dag til einna stærstu jarð- og vegavinnuverktakafyrirtækja landsins. Fyrirtækið var stofnað í Borgarnesi í byrjun ársins 1974 en aðdraganda stofnunar þess má rekja aftur til ársins 1955 þegar Sigvaldi Arason, faðir Óskar Sigvaldasonar, stofnaði til verktakareksturs í eigin nafni. Höfuðstöðvar félagsins eru áfram í Borgarnesi en auk hennar er starfsstöð á Selfossi og skrifstofur í Mosfellsbæ. Starfsmannafjöldinn er breytilegur eftir árstíma en þegar mest lætur yfir sumartímann eru starfsmenn rúmlega 130 talsins.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Bjartmar Steinn Guðjónsson, Atli Þór Jóhannsson og Óskar Sigvaldason.