Fréttasafn



15. jan. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Heimsókn í Gámaþjónustuna

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, heimsótti Gámaþjónustuna fyrir skömmu og hitti þar Gunnar Bragason, forstjóra, ásamt hans fólki. 

Gámaþjónustan hf. sem er aðildarfyrirtæki SI var stofnuð árið 1983 af Benóný Ólafssyni og hóf fyrirtækið starfsemi árið 1984. Fyrirtækið er því 35 í ár en Gámaþjónustan hefur frá upphafi verið í fararbroddi í flokkun og endurvinnslu úrgangs frá því hún hóf starfsemi. Til að annast krefjandi verkefni á ábyrgan hátt rekur Gámaþjónustan við Berghellu í Hafnarfirði móttöku- og flokkunarstöð ásamt endurvinnslustöð. Lóðin þar er níu hektarar og húsakostur um 4.000 fm. Vinnsluferlið í Berghellu miðar að því að hámarka hlut þeirra efna sem fara til endurvinnslu og halda urðun í lágmarki. Dótturfélög innanlands eru nokkur, sum í alhliða umhverfisþjónustu á landsbyggðinni, eitt í gáma-  og smáhýsaleigu ásamt sölu á ýmsum umhverfistengdum vörum og annað í móttöku og meðhöndlun spilliefna, raf- og rafeindatækja. Hjá Gámaþjónustunni starfa um 240 starfsmenn í ýmsum störfum. Fyrirtækið er með ISO vottun á alla sína starfsemi.

Guðrún segir ánægjulegt að sjá hversu öflug starfsemi Gámaþjónustunnar er. „Það er búið að vera frábært að ganga hér um fyrirtækið og sjá með eigin augum flokkun á rusli sem hingað kemur. Það er ljóst að við Íslendingar erum að gera margt mjög gott í sorpmálum en það sýnir sig líka að við verðum að gera enn betur. Það má gera ráð fyrir að fyrirtæki innan raða SI muni láta umhverfismál til sín taka í náinni framtíð.“

Heimsokn-Gamathjonustan1

Heimsokn-Gamathjonustan2

Heimsokn-Gamathjonustan3

Heimsokn-Gamathjonustan4