Fréttasafn31. jan. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Heimsókn í Gullkúnst Helgu

Framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins, Sigurður Hannesson, heimsótti Gullkúnst Helgu í dag en fyrirtækið er meðal aðildarfyrirtækja SI. Helga Jónsdóttir gullsmíðameistara og eiginmaður hennar, Hallgrímur Tómas Sveinsson, hafa rekið skartgripaverslunina síðan 1993 eða í 25 ár. Helga og sonur hennar, Hrannar Freyr Hallgrímsson gullsmiður, tóku á móti Sigurði en Hrannar Freyr starfar með móður sinni.

Gullkúnst Helgu er ein stærsta skartgripaverslun landsins og hefur hún alltaf verið til húsa á Laugaveginum, fyrst á Laugavegi 40, síðan 45 og nú síðast á Laugavegi 13 þar sem áður var Kristján Sigurgeirsson, Habitat og Herragarðurinn.

Helga er af sannkallaðri gullsmíðaætt en Leifur Jónsson gullsmiður, sem lengi rak Gullhöllina er bróðir hennar, móðurbróðir hennar er Jóhannes Leifsson gullsmiður og afabróðirinn var Sigmundur Grímsson, sem flutti til Vancouver og stundaði þar gullsmíðar um árabil. 

Aðspurð segir Helga mikla aukningu ferðamanna skila sér í sölutölum í versluninni, en séríslensk nálgun, m.a. notkun hrauns og íslenskra steina hefur skilað sér í miklum vinsældum verslunarinnar meðal erlendra ferðamanna. Auðsjáanlegt er að hver gripur er handgerður, einstakur og óvenjulegur.

Verslunarhegðun Íslendinga virðist heldur vera að breytast að sögn Helgu og panta þeir gjarnan í gegnum netið og Facebook frekar en að reyna að finna bílastæði á Laugaveginum.

Verslunin ber þess merki að þar fer ástríða fyrir hönnun og fallegu handverki, enda segist Helga standa og falla með verkum sínum og bætir við að alltaf hafi hún rekið verslunina á sömu kennitölu sem er hennar eigin.

Á myndinni fyrir ofan eru talið frá vinstri, Hrannar Freyr, Sigurður og Helga.

Gullkunst-Helgu3

Gullkunst-Helgu