Fréttasafn28. maí 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Heimsókn í Hampiðjuna

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Guðrún Birna Jörgensen, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, heimsóttu Hampiðjuna fyrir skömmu. Hjörtur Erlendsson, forstjóri fyrirtækisins, tók á móti þeim. 

Hampiðjan rekur 24 fyrirtæki í 12 löndum og er með um 60% af heimsmarkaði á sviði veiðafæragerðar. Starfsmennirnir eru um eitt þúsund og 70 þeirra eru staðsettir á Íslandi. 87% af veltu fyrirtækisins er útflutningur. 

Hampiðjan á fjöldann allan af einkaleyfum sem einn starfsmaður þeirra sérhæfir sig í að skrá og vinnur hann frá Bandaríkjunum. Í heimsókninni kom fram að Ísland er eina þjóðin með sérstaka menntun i veiðafæragerð og sendir fyrirtækið efnilega starfsmenn í nám í veiðafæragerð í Fisktækniskólann í Grindavík en áður var það kennt í Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

Það er mikil áhersla lögð á nýsköpun í framleiðslu Hampiðjunnar og er notuð nýjasta tækni í þróun veiðarfæra. Fyrirtækið fékk nýlega verðlaun Creditinfo fyrir að vera framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins. Þá má geta þess að Hampiðjan leggur áherslu á straumlínustjórnun og umhverfismál, sem dæmi þá eru allir afgangar endurnýttir innan fyrirtækisins.

Á myndinni hér fyrir ofan eru talið frá vinstri, Guðrún Birna Jörgensen, Sigurður Hannesson og Hjörtur Erlendsson.

Hampidjan-2-28-05-2018
Hampidjan-3-28-05-2018