Heimsókn í Hönnunarsafn Íslands
Fyrir skömmu heimsótti Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Hönnunarsafn Íslands sem staðsett er í Garðabæ. Á myndinni er Sigurður ásamt Sigríði Sigurjónsdóttur, forstöðumanni safnsins, sem tók á móti honum og Guðrúnu Birnu Jörgensen, viðskiptastjóra á framleiðslusviði SI.
Tilgangur heimsóknarinnar var að sjá og kynnast íslenskri hönnun og framleiðslu á húsgögnum. Samtök iðnaðarins vinna að því í samvinnu við Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda að móta tillögu til forsetaembættisins um útfærslu á verkefni sem miðar að því að íslensk hönnun og framleiðsla sjáist á Bessastöðum.