Fréttasafn28. maí 2018 Almennar fréttir

Heimsókn í Marel

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, heimsóttu Marel síðastliðinn föstudag. Marel er alþjóðlegt hátæknifyrirtæki í fararbroddi í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir matvælaiðnað. Hjá fyrirtækinu starfa um 5.400 manns í sex heimsálfum, þar af um 600 á Íslandi, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru. Á Íslandi fer fram nýsköpun, þróun og framleiðsla tækni- og hugbúnaðar. 

Það voru Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, og Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur, sem tóku á móti þeim. Í heimsókninni fór Árni Oddur yfir sögu fyrirtækisins, stöðuna í dag og tækifærin framundan. Meðal annars var rætt um áskoranir sem íslensk iðnfyrirtæki standa frammi fyrir, samkeppnishæfni Íslands og leiðir til að efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar þar sem menntamál báru á góma. Boðið var upp á skoðunarferð um starfsstöðina þar sem verksmiðjan var skoðuð og nýsköpunarmiðstöð Marel heimsótt.

Á myndinni hér fyrir ofan eru talið frá vinstri Árni Sigurjónsson, Árni Oddur Þórðarson, Sigurður Hannesson og Sigríður Mogensen.